Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir
Jóhanna Sigurðardóttir fjallar um þjóðaratkvæðagreiðsluna: "Stjórnvöld ætla að mismuna atkvæðavægi fólks á grófan hátt."

Í GREINARGÓÐU og rökföstu áliti um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem hæstaréttarlögmennirnir Hróbjartur Jónatansson og Dögg Pálsdóttir unnu að ósk stjórnarandstöðunnar koma fram mjög athyglisverðar niðurstöður.

Samþykki meirihluta þarf til að staðfesta lögin

Í álitinu er vitnað í skýringu með ákvæði því sem sett var í stjórnarskrána 1944 um málskotsrétt forseta Íslands. Þar kemur fram að lagafrumvarp fellur úr gildi ef það fær ekki meirihluta atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hæstaréttarlögmennirnir vekja sérstaka athygli á niðurlagi 26. gr. stjórnarskrárinnar um málskotsréttinn þar sem kveðið er á um að lögin falli úr gildi ef samþykkis er synjað í þjóðaratkvæðagreiðslu. M.ö.o virðist það ótvírætt að leitað skuli eftir beinu samþykki við lögunum, þ.e. að meirihluti þerra sem atkvæði greiða styðji fjölmiðlalögin. Það sé því beinlínis andstætt 26. gr. stjórnarskrárinnar að setja nú í almenn lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu að fjölmiðlalögin skuli gilda áfram, nema skilyrtur meirihluti atkvæðisbærra manna felli þau.

Athyglisvert er einnig það álit lögmannanna að ætla verði að stjórnarskrárgjafinn hafi ekki haft í hyggju að skilyrða niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar með strangari hætti en hann skilyrðir niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu um brottvikningu forseta og breytingu á kirkjuskipan ríkisins. Þar ræðst niðurstaðan af meirihluta greiddra atkvæða og hvers kyns takmörkun á meðferð og nýtingu kosningaréttarins sé því aðeins gild að stjórnarskráin mæli ótvírætt fyrir um slíkt. Skýrt kemur fram að lög sem kveða á um lágmarksþátttöku kosningabærra manna án þess að styðjast við skýra heimild stjónarskrárinnar í þeim efnum fá ekki staðist.

Atlaga að mannréttindum og lýðræði

Tilvitnun í álitinu í sérlegan ráðgjafa forsætisráðherra, Jón Steinar Gunnlaugsson hrl., hlýtur einnig að vekja athygli. Í bókinni Deilt á dómarana frá 1987 kemur fram eftirfarandi viðhorf Jóns: "Mín skoðun er sú, að hafna ætti öllum frávikum frá orðum stjórnarskrár ef frávik ganga í þá átt að rýra vernd borgaranna fyrir ríkisvaldi." Fróðlegt verður að fylgjast með því hvort Jón Steinar muni styðja þá ætlan ríkisstjórnarinnar að setja skilyrði sem sannarlega takmarka rétt borgaranna. Hugmyndir stjórnarflokkanna þýða að vægi atkvæða þeirra sem styðja fjölmiðlalögin er margfalt meira en þeirra sem hafna þeim. Ef það skilyrði yrði sett að 44% atkvæðisbærra manna þyrfti til að fella lögin yrðu tæplega 94 þúsund manns að greiða atkvæði gegn lögunum. Í þremur af fimm þjóðaratkvæðagreiðslum sem haldnar hafa verið hér á landi hefur kosningaþátttaka verið innan við 50%. Ef 100 þúsund manns mættu nú á kjörstað - eða tæplega 47% atkvæðisbærra manna og 93 þúsund þeirra vildu fella lögin en 7 þúsund samþykkja, þá réðist niðurstaðan af vilja 7% þeirra sem þátt tækju. Hér væri verið að mismuna á grófan hátt atkvæðavægi fólks en það er hrein atlaga að mannréttindum og lýðræði.

Óheimilt að mismuna kjósendum

Afstaða hæstaréttarlögmannanna Daggar og Hróbjarts er afdráttarlaus í álitinu sem styður mjög afstöðu stjórnarandstöðunnar. Þar kemur fram að hinum almenna löggjafa sé óheimilt að mismuna kjósendum í lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu að því er varðar innbyrðis vægi atkvæða samþykkjenda, annars vegar og synjenda, hinsvegar. Rökstuðningur lögmannanna er m.a. sá að við skýringu á 26. gr. verði að hafa til hliðsjónar að kosningar skulu fara fram án manngreinarálits í samræmi við 65 gr. stjórnarskrárinnar og 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Undir þetta hljóta flestir að geta tekið. Með svona skilyrðum er vegið að grundvelli 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um að allir skuli jafnir fyrir lögum. Þjóðin hlýtur að bregðast hart við nú þegar fyrir liggur að stjórnvöld ætla að mismuna atkvæðavægi fólks á grófan hátt. Spurningin þegar þetta er skrifað er einungis sú hve langt þeir ætla að ganga. Enn einu sinni er því á ferðinni grímulaus valdhroki ráðamanna sem þjóðin hlýtur að vera búin að fá sig fullsadda af.

Jóhanna Sigurðardóttir fjallar um þjóðaratkvæðagreiðsluna

Höfundur er alþingismaður