INDVERSK hermálayfirvöld skutu í gær í tilraunaskyni á loft skammdrægri eldflaug sem borið getur kjarnorkuvopn. Fóru tilraunirnar fram undan austurströnd Indlands, samkvæmt því sem talsmaður indverska varnarmálaráðuneytisins greindi frá.

INDVERSK hermálayfirvöld skutu í gær í tilraunaskyni á loft skammdrægri eldflaug sem borið getur kjarnorkuvopn. Fóru tilraunirnar fram undan austurströnd Indlands, samkvæmt því sem talsmaður indverska varnarmálaráðuneytisins greindi frá.

Aðeins eru nokkrar vikur síðan indversk og pakistönsk stjórnvöld áttu síðast í viðræðum sem miðuðu að því að draga úr spennu í samskiptum ríkjanna, einkum með það í huga að draga úr hættu á að til átaka kæmi milli þeirra þar sem kjarnorkuvopnum yrði beitt.

Agni-flaugin svonefnda, sem skotið var á loft í gær, er indversk. Þetta er flaug sem skotið er af landi og hefur um 700 km drægi. Tilraunaflauginni var skotið af hreyfanlegum skotpalli af Wheeler-eyju undan strönd Orissa-ríkis á austanverðu Indlandi.

Pakistanstjórn sagðist ekki hafa áhyggjur vegna tilraunaskotsins, þar sem það væri "fullveldisréttur" hverrar þjóðar að koma sér upp sem beztri hernaðartækni.

Bhubaneshwar á Indlandi. AFP.