Tónleikar Metallica heppnuðust með afbrigðum vel eins og lesa má úr svipbrigðum þessara tónleikagesta.
Tónleikar Metallica heppnuðust með afbrigðum vel eins og lesa má úr svipbrigðum þessara tónleikagesta. — Morgunblaðið/ÞÖK
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stærstu rokktónleikar Íslandssögunnar fóru fram í gærkvöld þegar þungarokkssveitin Metallica lék fyrir tæplega 18.000 manns. Tónleikarnir voru þeir síðustu á Evróputúr sveitarinnar.

Stærstu rokktónleikar Íslandssögunnar fóru fram í gærkvöld þegar þungarokkssveitin Metallica lék fyrir tæplega 18.000 manns. Tónleikarnir voru þeir síðustu á Evróputúr sveitarinnar.

Hörðustu aðdáendur sveitarinnar höfðu staðið í röð fyrir framan Egilshöllina frá því um morguninn en byrjað var að hleypa inn í húsið kl. 17. Klukkan sex voru þrjú til fjögur þúsund gestir komnir í húsið og þegar Brain Police sté á svið kl. 18.30 var meirihluti tónleikagesta kominn á staðinn. Þegar Mínus hóf að leika var hitinn í húsinu orðinn gríðarlegur og andrúmsloftið rafmagnað. Krummi, söngvari sveitarinnar, fór mikinn á sviðinu og tryllti lýðinn fyrir það sem koma skyldi. Tónleikagestir, sem voru á aldrinum 8 ára til sextugs, biðu með öndina í hálsinum eftir því sem koma skyldi.

Þegar Metallica sté á svið var hitinn orðinn óbærilegur og rokkþyrstum tónleikagestum héldu engin bönd. Sveitin byrjaði af miklum krafti sem hún hélt allt til loka og ekki er ofsögum sagt að hér fari ein fremsta þungarokkssveit heims í dag. Tónleikagestir voru vel með á nótunum þegar hljómsveitin byrjaði að spila og sungu með af miklum krafti - það var engu líkara en tónleikagestir hefðu æft saman sem kór fyrir tónleikana. Liðsmenn Metallica kunnu vel að meta þessar móttökur og sögðu það greinilegt að Íslendingar hefðu fengið nægan tíma til þess að æfa sig.

Umgjörð tónleikanna var glæsileg og var það vel að halda slíka tónleika í Egilshöll. Má því með sanni segja að nú fyrst sé kominn alvöru tónleikastaður á Íslandi.