ÞÁ HAFA sauðfjárbændur þingað í ár og var þeirra aðaláhyggjuefni að fara að huga að nýjum samningi við ríkið 2008! Núverandi samningur á að renna út 2007 og þar með átti beingreiðslum að ljúka, ef ég man rétt. En...

ÞÁ HAFA sauðfjárbændur þingað í ár og var þeirra aðaláhyggjuefni að fara að huga að nýjum samningi við ríkið 2008! Núverandi samningur á að renna út 2007 og þar með átti beingreiðslum að ljúka, ef ég man rétt. En...þeir ætla að tryggja sig dulítið fyrirfram eins og kúabændur gerðu í vor. Vilja vera duggunarlítið lengur á ríkisspenanum, blessaðir. Lengja í hengingarólinni og viðhalda átthagafjötrunum í sínum ríkisreknu fjósum og fjárhúsum.

Samkvæmt nýrri skýrslu frá OECD borgar hvert mannsbarn á Íslandi um 52.000 kr. á ári með landbúnaði. Það þýðir að það kostar mína tíu manna fjölskyldu rúmlega hálfa milljón á ári. Það væri nú ekki slorlegt að geta lagt þessa upphæð í sameiginlegan sjóð fjölskyldunnar í staðinn fyrir að borga með illa reknum búum (sjálfstæðum atvinnurekstri) um allt land.

Og nú vilja fleiri bændur feta í fótspor bænda á Austurlandi og opna netverslun með lambakjöt, þar sem sjá má frá hvaða bæ kjötið kemur, upplýsingar um ábúendur (aldur og aukastörf) og í hvaða haga lambið ólst upp. Ekki slæmar upplýsingar, því nú get ég pantað kjöt af lambi og ráðið því hvort ég vil það sem ólst upp í vegkantinum, í skógræktinni, á friðaða svæðinu, í kjarrinu, á síðustu stráunum á Hólsfjöllum eða Mývatnsöræfum, nú eða þetta sem ólst upp í beitarhólfinu.

Án gamans, hvernig ætla bændur að fylgjast með því, hvert hver kind æðir með afkomendur sína? Kannski þeir fari þá að sækja rollurnar sínar óbeðið í vegkantinn, skógræktina eða á friðaða svæðið. Kannski það.

En ég held að ég velji lambið úr beitarhólfinu, því þá veit ég að viðkomandi lamb hefur ekki níðst á viðkvæmum fjallagróðri okkar, ekki verið í kjarrinu (sem var einu sinni skógur) og heldur ekki í skógræktinni né á friðaða svæðinu.

Munið að gróðurhulan er aðeins 25% af stærð landsins.

P.S. Geir Magnússon í Ameríku! Takk fyrir stuðninginn. Allt gott kemur að utan.

MARGRÉT JÓNSDÓTTIR

Melteigi 4,

300 Akranes

melteigur@simnet.is

Frá Margréti Jónsdóttur á Akranesi: