"Niðurstaðan er óvænt," sagði Davíð Oddsson við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund, áður en hann fór á þingflokksfund sjálfstæðismanna.
"Niðurstaðan er óvænt," sagði Davíð Oddsson við fréttamenn eftir ríkisstjórnarfund, áður en hann fór á þingflokksfund sjálfstæðismanna.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EIGNARHLUTUR markaðsráðandi fyrirtækja eða fyrirtækjasamstæðu í ljósvakamiðli er samkvæmt nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem samþykkt var að leggja fram í gær, hækkaður úr 5% að hámarki í 10% og gildistöku laganna er frestað til 1.

EIGNARHLUTUR markaðsráðandi fyrirtækja eða fyrirtækjasamstæðu í ljósvakamiðli er samkvæmt nýju frumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem samþykkt var að leggja fram í gær, hækkaður úr 5% að hámarki í 10% og gildistöku laganna er frestað til 1. september árið 2007, eða fram yfir næstu þingkosningar. Þessar breytingar frá nýsamþykktum fjölmiðlalögum voru samþykktar í ríkisstjórn síðdegis í gær og á þingflokksfundum stjórnarflokkanna í kjölfarið í gærkvöldi. Verður frumvarpið lagt fyrir sumarþingið, sem hefst á Alþingi í dag, og þar er ákvæði um að fella úr gildi lögin frá því í vor. Verði nýja frumvarpið samþykkt og staðfest og núverandi lög felld úr gildi, sem forseti Íslands neitaði að staðfesta, verður ekki af þjóðaratkvæðagreiðslu í ágúst um þau lög. Vinna við lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu hefur verið lögð til hliðar í bili.

Einhugur ríkti um frumvarpið

Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sögðu að loknum þingflokksfundum að einhugur hefði ríkt um nýtt frumvarp.

Í greinargerð með nýja frumvarpinu segir m.a. að með því að hækka hámark eignarhlutar markaðsráðandi fyrirtækis í ljósvakamiðli sé enn frekar en í gildandi lögum komið til móts við sjónarmið um að gæta þurfi ákveðins meðalhófs við setningu takmarkana af þessu tagi. Varðandi frestun á gildistöku segir í frumvarpinu að lögin gefi enn rýmri tíma til að laga sig að þeim skilyrðum sem sett séu. Önnur ákvæði í frumvarpinu eru að langmestu leyti óbreytt frá nýsamþykktum fjölmiðlalögum.

Davíð Oddsson sagði við fréttamenn að ákveðið hefði verið að fara þessa leið þar sem augljóslega hefði verið uppi lögfræðileg óvissa, bæði um túlkun 26. greinar stjórnarskrárinnar, sem forseti Íslands byggði synjun sína á fjölmiðlalögunum á, og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. "Menn losa sig og þjóðina undan þeim ógöngum að fara fram með þetta mál í fullkominni óvissu," sagði Davíð og taldi það óhjákvæmilegt að taka stjórnarskrána til endurskoðunar og þá 26. greinina, miðað við niðurstöðu lögfræðinganna sem skiluðu nýlega skýrslu um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Huga þyrfti að því hvort menn vildu setja sérstakar reglur almennt um þjóðaratkvæðagreiðslu, þá ekki endilega með milligöngu forsetans heldur með þeim hætti að þjóðin sjálf gæti óskað eftir því að fá mál fyrir þjóðaratkvæði.

Forseti Íslands á að geta skrifað undir ný lög

Halldór Ásgrímsson sagði að veigamiklar breytingar fælust í hinu nýja frumvarpi. Vonaðist hann til þess að stjórnarandstaðan myndi þiggja boð um að vinna að málinu og sagði engan vafa vera á því að forseti Íslands ætti að geta skrifað undir ný lög. "Það verða kosningar í landinu áður en þessi taka gildi. Hér er um nýtt mál að ræða og vonandi tekst um það góð sátt. Forsetinn hefur lagt áherslu á að slík sátt náist og við höfum boðið stjórnarandstöðunni að koma að vinnslu málsins. Allt þetta ætti að vera mikilvægt fyrir forsetann, miðað við þá afstöðu sem hann tók," sagði Halldór.

Spurður sagði Halldór að stjórnarsamstarfið hefði ekki verið í hættu vegna málsins, en ljóst að það hefði reynt á alla við að finna lausn á því. Hafnaði hann því að þessi leið hefði verið farin vegna deilna um lagasetningu varðandi þjóðaratkvæðagreiðsluna.