Glímubrögðum beitt á Unglingalandsmóti UMFÍ á Ísafirði í fyrra.
Glímubrögðum beitt á Unglingalandsmóti UMFÍ á Ísafirði í fyrra. — Morgunblaðið/Sigurður Aðalsteinsson
Nú þegar örfáir dagar eru í að Landsmót UMFÍ hefjist á Sauðárkróki er enn deilt um hver eigi að bera kostnað af löggæslu í tengslum við mót af þessu tagi. Telja forráðamenn UMFÍ mótshaldara ekki sitja við sama borð hvað þetta varðar.

Nú þegar örfáir dagar eru í að Landsmót UMFÍ hefjist á Sauðárkróki er enn deilt um hver eigi að bera kostnað af löggæslu í tengslum við mót af þessu tagi. Telja forráðamenn UMFÍ mótshaldara ekki sitja við sama borð hvað þetta varðar. Hátíðir í þéttbýli, þar sem sólarhringslöggæsla sé við lýði, sleppi að mestu við þennan kostnað. Formaður landsmótsnefndar UMFÍ, Bjarni Jónsson, telur eðlilegast að ríkið beri kostnaðinn og geri ávallt ráð fyrir honum á fjárlögum þegar stórviðburðir eru á dagskrá. Fram til ársins 2002 var veitt fjármagn frá dómsmálaráðuneytinu af sérstökum fjárlagalið til lögregluembætta sem stóðu frammi fyrir aukakostnaði af stórviðburðum og skemmtunum utan dyra. Eftir það hefur aukakostnaður fallið á aðstandendur útihátíða, landsmóta og stórtónleika.

Deila sem þessi kom upp á Ísafirði á síðasta sumri þegar unglingalandsmót fór fram og eftirmál eru enn í gangi. Stjórn UMFÍ hefur ákveðið að höfða mál gegn ríkinu vegna 500 þúsund króna löggæslukostnaðar sem UMFÍ var krafið um vegna dansleikja og kvöldvöku á mótinu. Kostnaðurinn í heild var þó meiri hjá lögreglu. Dómsmálaráðuneytið staðfesti með úrskurði í apríl sl. þá ákvörðun sýslumannsins á Ísafirði að krefja UMFÍ um þessa upphæð. Forráðamenn UMFÍ íhuga að fara einnig dómstólaleiðina vegna landsmótanna á Sauðárkróki í sumar vegna stóra landsmótsins um næstu helgi og unglingalandsmótsins sem halda á þar í bæ um verslunarmannahelgina. Samkvæmt kröfu sýslumanns á Sauðárkróki er áætlað að löggæslukostnaður vegna þessara móta sé á þriðju milljón króna, þar af 1,5 millj. um næstu helgi.

Lögreglustjóra að meta þörf

Samkvæmt bréfi frá dómsmálaráðuneytinu, nú síðast í júní, hafa lögreglustjóraembættin í landinu haft viðmiðunarreglur vegna fjölsóttra skemmtana utanhúss. Þar kemur m.a. fram að það sé hvers lögreglustjóra að meta löggæsluþörfina. Við það sé tekið tillit til væntanlegs gestafjölda, samsetningar gesta, staðsetningar hátíðar, hvort meðferð og neysla áfengis sé bönnuð á mótssvæði o.fl. Síðan er talinn upp í bréfinu sá margháttaði viðbúnaður sem mótshaldarar þurfa að hafa til að fullnægja skilyrðum um skemmtanaleyfi. Í bréfinu segir einnig að það sé viðkomandi lögreglustjóra að meta hvort sá viðbúnaður sem fyrirhugaður sé á hátíðarsvæði sé fullnægjandi.

Stefán Eiríksson, skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu, segir að aðeins sé hægt að binda viðburð þessum skilyrðum ef gefið sé út skemmtanaleyfi. Ráðuneytið hafi ekki skipt sér af einstökum ákvörðunum lögreglustjóra hvort skemmtanaleyfi sé gefið út eða ekki. Stefán segir það augljóst að embætti lögreglustjóra í landinu séu misstór og misvel í stakk búin til að sinna stórviðburðum. Bendir hann jafnframt á að þegar Landsmót hestamanna hafi farið fram í Reykjavík fyrir nokkrum árum hafi t.d. engar tjaldbúðir verið á mótssvæðinu og mótshaldarar aðeins verið rukkaðir um 300 þúsund króna löggæslukostnað. Nefnir Stefán einnig sem dæmi viðbúnað lögreglu vegna tónleika Metallica í Egilshöll í gærkvöld. Þar hafi viðbótarkostnaður lögreglu verið um ein milljón króna, sem verði rukkað.

Réttlætis- og byggðamál

Bjarni Jónsson, formaður landsmótsnefndar UMFÍ, sem einnig á sæti í sveitarstjórn, segir það ekki standa til af hálfu mótshaldara að greiða kostnaðinn, og það standi heldur ekki til að Sveitarfélagið Skagafjörður hlaupi undir bagga með fjármagn. Spurður um helstu rök fyrir afstöðu sinni segir Bjarni það vera réttlætis- og byggðamál að íþróttafélög sitji við sama borð gagnvart löggæsluyfirvöldum og félög á höfuðborgarsvæðinu, óháð staðsetningu á landinu. Ef sá siður verði innleiddur að smærri íþróttafélög á landsbyggðinni þurfi að greiða háar upphæðir fyrir löggæslukostnað þá sé þeim ógerlegt að halda stórmót í framtíðinni. Þetta sé í raun prófmál.

Bjarni gagnrýnir einnig að í svarbréfi ráðuneytisins sé gefið í skyn að landsmót séu frekar skemmtanir en íþróttamót og bent á að hver keppandi greiði þátttökugjald, sem líta megi á sem aðgang að skemmtun. Bjarni segir landsmótsnefnd ekki standa fyrir neinum dansleikjum, ekkert sé rukkað inn á svæðið.

bjb@mbl.is