[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mismunandi afstöðu Samfylkingar og Vinstri grænna mátti greina í fyrstu viðbrögðum formanna þessara tveggja flokka í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi vegna óvæntrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar í deilunum um fjölmiðlalögin.

Mismunandi afstöðu Samfylkingar og Vinstri grænna mátti greina í fyrstu viðbrögðum formanna þessara tveggja flokka í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi vegna óvæntrar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar í deilunum um fjölmiðlalögin.

Össur Skarphéðinsson sá ekkert jákvætt í yfirlýsingum formanna stjórnarflokkanna í gærkvöldi. Steingrímur J. Sigfússon talaði á annan veg. Þótt hann talaði um algera uppgjöf o.s.frv. mátti greina í orðum hans vilja til þess að standa að löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum.

Þessi mismunandi afstaða kemur ekki á óvart. Frá því að málið kom upp sl. vetur hefur Samfylkingin af einhverjum ástæðum verið ófáanleg til þess að ræða í alvöru um löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum en þess í stað lagt áherzlu á breytta löggjöf varðandi Ríkisútvarpið og löggjöf, sem tryggja mundi sjálfstæði ritstjóra gagnvart eigendum og blaðamanna gagnvart ritstjórum.

Vinstri grænir höfðu hins vegar frumkvæði að því á þingi sl. haust að hreyfa umræðum um eignarhald á fjölmiðlum. Mörgum kom á óvart í því ljósi, að þeir skyldu ekki standa með ríkisstjórnarflokkunum að lagasetningunni en jafnframt ljóst að andstaða þeirra við fjölmiðlafrumvarpið átti sér aðrar ástæður en efni frumvarpsins sem slíks.

Þótt afstaða Samfylkingarinnar sé óskiljanleg þegar tekið er mið af þeim grunni, sem Samfylkingin er byggð á, er hún engu að síður staðreynd. Hins vegar eru meiri líkur á, að í rólegra pólitísku andrúmslofti verði Vinstri grænir tilbúnari til að taka efnislega afstöðu til málsins.

Í umræðum undanfarinna vikna og mánaða hafa flestir, sem til máls hafa tekið lýst þeirri skoðun, að sjálfsagt væri að setja lög um eignarhald á fjölmiðlum en gert athugasemdir við málsmeðferð. Ef engin breyting verður á afstöðu Samfylkingarinnar bendir margt til, að þegar upp verður staðið verði það Samfylkingin, sem hafi einangrast í afstöðu sinni.