Prada
Prada
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fimm daga tískuviku í Mílanó er nú lokið en þar var sýnd herratískan fyrir næsta vor og sumar. Í heildina virðist tískan ætla að verða afslöppuð og var stemningin í kringum sýningarnar líka afslappaðri en venjulega.

Fimm daga tískuviku í Mílanó er nú lokið en þar var sýnd herratískan fyrir næsta vor og sumar. Í heildina virðist tískan ætla að verða afslöppuð og var stemningin í kringum sýningarnar líka afslappaðri en venjulega. Lítið var um glæsivagna með frægu fólki og ekki þurfti að berjast eins mikið um að komast í bestu veislurnar. "Það er ekkert fjör lengur," sagði leigubílstjórinn Giovanni Calazano í samtali við fréttastofu AP á meðan hann beið í hitanum í leigubílastöð.

Áhrif 11. september á tískuiðnaðinn hafa ennþá sitt að segja en líklegt er að það fari að breytast á næstunni. Ítalska viðskiptablaðið Sole 24 Ore greindi frá því nýlega að tískubransinn væri hægt að jafna sig á 7% samdrætti í sölu árið 2003 og búist sé við söluaukningu næstu tvö ár. Sala í Evrópu og Bandaríkjunum hefur dregist saman og því eru ítalskir hönnuðir að fjárfesta í Asíulöndum, Rússlandi og fyrrum Sovétríkjum. "Þarna er vöxturinn," segir Michele Norsa, framkvæmdastjóri hjá Valentino í viðtali við blaðið, og er hún að ræða um ítalska tískuiðnaðinn í heild.

Módelin voru grennri en venjulega og er það í takt við erfiðari tíma. Mjög karlmannlegir og vöðvastæltir kroppar eru ekki eins mikið í tísku lengur. Strákarnir eru þó ófeimnir við að sýna hörund sitt og á sýningu D&G fóru módelin úr gallabuxunum í lok sýningarinnar og stungu þeim í þvottavélar en sýningarpallarnir voru látnir líkjast þvottahúsi. Því næst gengu þeir um í skjannahvítum nærbuxum.

Strákarnir voru ekki þeir einu sem beruðu sig í tískusýningunum en Christina Aguilera gekk um klædd eins og nektardansmær í sýningu DSquared. Hönnuðir þeirrar línu eru tvíburabræðurnir Dean og Dan Caten.

Einnig má geta þess að Allegra Beck, dóttir fyrrverandi fyrirsætunnar Paul Beck og hönnuðarins Donatellu Versace, varð 18 ára hinn 30. júní. Það þýðir að hún á nú 50% af Versace-tískuhúsinu en þetta er arfur eftir frænda hennar Gianni. Þar með hefur hún völd til að taka ákvarðanir í tískuhúsinu og á eftir að koma í ljós hvort hún setur mark sitt á Versace.

Eins og sést á meðfylgjandi myndum geta strákar líkt og stelpur klætt sig á fjölbreyttan hátt. Herratíska snýst ekki bara um jakkaföt heldur eru möguleikarnir margir. Litagleðin er næg og næsta sumar (eða bara byrja strax í dag) verður engin afsökun fyrir því að klæða sig á óspennandi og leiðinlegan hátt.

ingarun@mbl.is