Það mun verða horft mjög til þess hvort dómskerfið í landinu reynist fært um að halda sanngjörn réttarhöld yfir Hussein.
Það mun verða horft mjög til þess hvort dómskerfið í landinu reynist fært um að halda sanngjörn réttarhöld yfir Hussein. — REUTERS
Hinn 28. júní síðastliðinn afsalaði Bandaríkjaher sér völdum í Írak í hendur þarlendrar bráðabirgðastjórnar. Lauk þar með beinni stjórn þeirra á landinu þrátt fyrir að ekki liggi fyrir hvenær herinn heldur þaðan á brott.

Hinn 28. júní síðastliðinn afsalaði Bandaríkjaher sér völdum í Írak í hendur þarlendrar bráðabirgðastjórnar. Lauk þar með beinni stjórn þeirra á landinu þrátt fyrir að ekki liggi fyrir hvenær herinn heldur þaðan á brott. Innrás Bandaríkjamanna og fleiri þjóða í Írak var og er mjög umdeild. Varla getur þó nokkur maður haldið því fram að eftirsjá sé í stjórn Saddams Hussein sem er sekur um fjölmörg grimmdarverk gagnvart eigin þjóð meðal annars eiturgasárásir svo eitthvað sé nefnt. Gengið hefur á með stöðugum ófriði í landinu síðustu mánuði og mannfall hefur verið mikið bæði meðal hermanna og óbreyttra borgara, þrátt fyrir að langt sé síðan eiginlegum hernaðarátökum lauk.

Rökin stóðust ekki

Bandaríkjamenn sjálfir eru farnir að efast um gagnsemi innrásarinnar. Rannsóknarnefnd þar í landi hefur komist að því að ekki sé hægt að sanna nein tengsl á milli Al-Quaeda samtaka Osama bin Laden og stjórnvalda í Írak. Bush forseti Bandaríkjanna og fleiri forystumenn ríkisstjórnar hans hafa þó ekki sætt sig við þá niðurstöðu. Ekki hafa heldur fundist nein gereyðingarvopn í geymslum stjórnar Saddams. Þau rök sem helst var beitt til að réttlæta innrásina hafa því ekki staðist. Eins og áður sagði þá gætir nú orðið mikilla efasemda í Bandaríkjunum sjálfum og nýjar skoðanakannanir sýna að meirihluti almennings þar í landi telur innrásina mistök. Svo kann því að fara að Íraksmálið allt verði George W. Bush forseta fremur til skaða en ávinnings í forsetakosningunum sem fram fara í nóvember næstkomandi.

Fari svo væri það sérstök kaldhæðni örlaganna því eins og þeir sem hafa fylgst með kosningum í Bandaríkjunum vita átti faðir hans og fyrrum forseti, George Bush eldri, einnig í útistöðum við Saddam Hussein leiðtoga Íraks. Hussein hafði þá hernumið Kúveit og Bush eldri beitti sér fyrir hernaðaraðgerðum til að hrekja Íraka þaðan aftur. Fleiri lögðust þá á árarnar með Bandaríkjamönnum en nú því að um fjörutíu þjóðir sendu hermenn til að taka þátt og allur hernaðurinn var samkvæmt samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Skýrt var afmarkað hvert verkefnið var, semsagt að hrekja írakska herinn frá Kúveit. Það tók skamman tíma og mannfall var lítið. Gagnrýnin á þeim tíma beindist helst að því að ekki hefði verið gengið nógu langt. Sumir vildu að herinn færi alla leið til Bagdad og velti Hussein úr sessi. Það var þó ekki gert. Bush eldri lét duga að hvetja Íraka til að gera uppreisn gegn Hussein. Í suðurhluta Íraks var brugðist við því kalli, líklega í þeirri von að Bandaríkjamenn myndu vilja hjálpa uppreisnarmönnum eftir að bardagar brytust út. Það varð ekki raunin og uppreisnin náði aldrei markmiði sínu. Hussein bældi hana niður af mikilli grimmd. Þúsundir manna voru teknar af lífi án dóms og laga í framhaldinu. Margir þeirra andstæðinga Husseins sem eftir lifðu töldu Bandaríkjamenn hafa svikið sig og hafa aldrei treyst þeim síðan. En Bush eldri stóð uppi sem sigurvegari á sínum tíma. Yfir 90% Bandaríkjamanna voru ánægð með störf hans eftir þetta allt saman en rúmu ári síðar var hann samt felldur af Bill Clinton í forsetakosningum. Slæm staða efnahagsmála og gífurlegur fjárlagahalli hafði þó mikil áhrif á þá niðurstöðu eins og vera kann að verði einnig hjá Bush yngri í nóvember.

Margt farið á verri veg

Margt hefur farið á verri veg hjá George W. Bush í Írak en föður hans. Auk þess að finna engin gereyðingarvopn eða tengsl við Al-Quaeda þá hefur hernum ekki tekist að vinna traust íraks almennings. Almannaþjónusta eins og vatn og rafmagn hefur verið að skornum skammti og atvinnuleysi hefur stóraukist. Allt þetta hefur kynt undir mikilli óánægju í landinu. Þrátt fyrir handtöku Saddams sjálfs og flestra af forystumönnum stjórnar hans hefur herinn þurft að standa í sífelldum átökum við skæruliða. Lítið dró úr því við handtöku Saddams eða víg sona hans tveggja Uday og Quesay. Skæruhernaðurinn er því tæpast bundinn við fylgismenn Husseins. Margir í landinu eru þeirrar skoðunar að óviðunandi sé að erlendur her stjórni landinu og þá ekki síst her sem ekki er sömu trúar og allur almenningur. Jafnframt ber á þeirri skoðun að þó að Hussein hafi óumdeilanlega verið grimmur harðstjóri þá hefði hann verið vandamál Íraka sjálfra sem átt hefði að láta þá sjálfa um að leysa. Væntanlega hefur þetta hvatt einhverja til að grípa til vopna gegn Bandaríkjamönnum sem aldrei hafa verið sérstakir stuðningsmenn Husseins.

Forkastanlegt athæfi í Abu Ghraib

Málið varðandi illa meðferð hersins á írökskum föngum í Abu Ghraib-fangelsinu og á fleiri stöðum hefur líka haft mikil áhrif. Það ógeðfellda og forkastanlega athæfi sem þar fór fram hefur valdið óbætanlegum skaða. Það er heldur ekki flókið að skilja að þeir sem koma inn í land í því skyni að losa almenning undan harðstjórn geta ekki leyft sér að nota aðferðir þeirrar sömu harðstjórnar í eigin tilgangi. Við það fara þeir niður á sama stig og traust þeirra hjá almenningi í hinu hertekna landi bíður auðvitað hnekki í samræmi við það. Sá skaði er skeður og verður tæpast unninn til baka.

En nú hafa Írakar sjálfir semsagt tekið við stjórninni. Brösulega gekk að koma bráðabirgðastjórninni saman og þegar hafa nokkrir ráðherrar verið drepnir af skæruliðum. Eftir er að sjá hvort að þeim tekst betur að koma íröksku samfélagi á réttan kjöl en herstjórninni. Skæruliðar hafa beitt sér talsvert gegn olíuiðnaðinum í landinu nú upp á síðkastið sem hefur dregið mjög úr tekjum ríkisins og þar með endurbyggingu þess. Áætlanir eru uppi um kosningar snemma á næsta ári en ómögulegt er að segja hvort að það gengur eftir.

Prófsteinn á það sem koma skal

Á fimmtudag var síðan Saddam Hussein fyrrum leiðtogi Íraks leiddur fyrir dómara þar í landi. Mjög reynir því á þanþol hinnar nýju ríkisstjórnar strax. Það mun verða horft mjög til þess hvort að dómskerfið í landinu reynist fært um að halda sanngjörn réttarhöld yfir Hussein. Ríkisstjórnin getur ekki fremur en hernámsliðið leyft sér að sökkva niður á stig harðstjórnar Husseins sjálfs í viðleitni sinni til að refsa honum. Það er prófsteinn á það sem koma skal.

Eftir Sigurð Eyþórsson

Höfundur er framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins.