— Morgunblaðið/Sverrir
Ef til þess hefði verið ætlast að Alþingi setti aðrar og óvenjulegri reglur um hvernig túlka ætti niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu en að einfaldur meirihluti réði með sama hætti og í öllum venjulegum kosningum, þá hefðu 60 ár dugað Alþingi til að setja...

Ef til þess hefði verið ætlast að Alþingi setti aðrar og óvenjulegri reglur um hvernig túlka ætti niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu en að einfaldur meirihluti réði með sama hætti og í öllum venjulegum kosningum, þá hefðu 60 ár dugað Alþingi til að setja slík lög fyrir löngu. Þingmenn hefðu án vafa skilið hve brýnt það væri að slíkt gerðist áður en þingmenn hefðu skipað sér í lið um mál og bæru reglur um afl atkvæða að útkomu sinni varðandi það tiltekna mál sem þjóðin ætti að skera úr um. Auðvitað yrði alltaf meirihluti alþingismanna bak við þau lög sem forseti synjaði staðfestingar, og því gæti sami meirihluti ef honum væri það heimilt breytt gildi atkvæða. Fráleitt er að svo geti verið.

Vald þings er takmörkun háð

Kjörfundur er þingfundi æðri eins og hluthafafundur er stjórnarfundi æðri. Nýr vilji getur verið tjáður á hverjum kjörfundi. Þann vilja geta kjósendur sýnt með því að sitja hjá eða taka afstöðu með eða móti máli með gildu atkvæði. Þegar vilji kjósenda hefur ákvarðast á löglegum kjörfundi kemur það málinu ekki við þó kjörfundur hafi áður falið þingmönnum umboð sitt í gildum kosningum m.a. þar sem það umboð er háð takmörkunum sem í stjórnarskránni felast um þjóðaratkvæðagreiðslu með málsskoti forseta. Vald þingmanna er umboðsvald sem ekki er eign þingmanna heldur þjóðarinnar.

Þingmenn eru skyldugir til að mæta á þingfundi nema lögleg forföll hamli. Kjósendur eru ekki skyldugir til að mæta á kjörfundi enda erfitt um vik að ganga úr skugga um gildi forfalla allra forfallaðra kjósenda og ómögulegt að kalla inn varamenn í þeirra stað. Þrátt fyrir skyldu þingmanna til að mæta á þingfundi eru fá mál afgreidd að öllum þingmönnum viðstöddum. Eftir sem áður ræður einfaldur meirihluti þingmanna lyktum mála á þingi. Kjósendum er frjálst að taka þátt í kosningum eða ekki og geta haft hverja þá ástæðu sem þeim sýnist fyrir afstöðu sinni eða afstöðuleysi. Í því felst einnig tjáning kjósenda á skoðun eða vilja eins og forsætisráðherra hefur verið óþreytandi að benda á frá forsetakosningunum.

Hvað ef brottrekstur hersins hefði farið þessa leið?

Ef einhverjum íslenskum þingmönnum hefði komið það í hug, fyrr en núverandi ríkisstjórn þurfti að una synjun forseta, að setja mætti lög um raskað vægi atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu til synjunar eða staðfestingar laga, hefðu þeir kappkostað að gera það fyrir löngu.

Það er óhugsandi t.d. að Sjálfstæðisflokkurinn hefði sætt sig við slíkt við þær aðstæður sem hefðu getað orðið 1971-1974. Þá hefði það getað gerst að naumur meirihluti Alþingis hefði samþykkt lög um brottrekstur hersins og forseti mögulega synjað lögunum undirskriftar. Óhugsandi er við þær aðstæður að Sjálfstæðisflokkurinn hefði unað því að eftir það setti þessi sami naumi meirihluti Alþingsins ný skilyrði um gildi þjóðaratkvæðisgreiðslunnar og mismunandi vægi atkvæða með og á móti.

Er forsætisráðherra hæfur nú?

Það að þingmenn fjalli nú um og breyti vægi atkvæða kjósenda, má skoða í ljósi áburðar á forsetann um vanhæfi hans við að færa lokaákvörðun málsins til þjóðarinnar. Getur forsætisráðherra og flutningsmaður frumvarpsins Davíð Oddsson verið hæfur núna, siðferðislega eða í reynd, til að setja eftirá nýja þröskulda sem þrengja möguleika þeirra sem eru á öndverðum meiði við hann til að fella lögin með stuðningi meirihluta kjósenda á kjörfundi. Þ.e. að setja æðra stjórnvaldi - kjörfundi - skorður um mál sem hann hefur sjálfur borið fram á fyrra stigi?

Að sögn forsætisráðherra eru lögin afar einföld jafnvel með einföldustu málum. Ef þingmenn óttast að kjósendur séu leiddir í villu um málið þá tryggja þingmenn einfaldlega með fjárveitingum að kjósendur fái þær hlutlausu upplýsingar sem þeir þurfa og jafnt frá báðum hliðum. Það er leið hins vestræna lýðræðis.

Einfalt mál gert afar flókið

Ef þeim mætu þingmönnum sem sömdu stjórnarskránna hefði komið til hugar að einhver gæti gert einfalt mál flóknara en svo að gengið yrði til þjóðaratkvæðis eins og annarra kosninga og meirihluti greiddra atkvæða réði, hefðu þeir lagt alla áherslu á að ganga frá því strax. Annaðhvort í stjórnarskránni sjálfri eða án tafa með lögum væri það heimilt. Þeim þingmönnum hefði verið það fullljóst að ekki mætti skapast sú aðstaða að setja þyrfti slíkar reglur eftir að menn hefðu skipað sér í fylkingar um mál. Það er því ljóst af eðli málsins að óverjandi er og ekki ráð fyrir því gert að vægi atkvæða, með og á móti máli, sé raskað á þessu stigi þess sem fjölmiðlamálið er nú komið á. Næsta víst þyrfti að gera ráð fyrir því í stjórnarskrá og þing því að fjalla um það fyrir og eftir þingkosningar. Aðeins þannig mætti tryggja að ekki væri verið að setja slíkar reglur utanum tiltekið mál og nýjar í hvert skipti, heldur almennar um öll slík mál.

Eftir Helga Jóhann Hauksson

Höfundur er stjórnmálafræðingur.