Ég hugsaði mig lengi um áður en ég valdi þessum pistli heiti. Fyrst vildi ég kalla hann "Norðurmyrkur" enda sést vart glæta í íslensku þjóðlífi þótt fjölmiðlafyrirtæki kalli sig "Norðurljós".

Ég hugsaði mig lengi um áður en ég valdi þessum pistli heiti. Fyrst vildi ég kalla hann "Norðurmyrkur" enda sést vart glæta í íslensku þjóðlífi þótt fjölmiðlafyrirtæki kalli sig "Norðurljós". Svo datt mér í huga að nefna pistilinn "Rússneskun". Ástæðan er sú að stjórnmálaástandið á Íslandi minnir einna helst á Rússland á dögum Jeltsíns. Auðmannaklíkur berjast um völdin.

Að lokum kaus ég ofanritað heiti. Ástæðan er einfaldlega sú að ég hef beyg af Baugi og mér stendur stuggur af Kolkrabbanum. "Frá gulli er kominn þinn kraftur" segir í kvæðinu, auðvaldið er ekki dautt nema síður sé. Makt Kolkrabbans og fjölmiðlaveldi Baugsmanna sýnir að svo er. Hið sama gildir um stóraukna samþjöppun auðmagns á heimsvísu. Hnatt- og markaðsvæðing eru sennilega sökudólgarnir. Ekki er heldur ólíklegt að þær systur hnatt- og markaðsvæðing hafi aukið misskiptingu auðs víða um lönd. Þessu til sannindamerkis má vitna í franska fræðimanninnn Serge Hamili. Hann segir að um 1980 hafi stjórnendur í bandarískum stórfyrirtækjum haft fertugfaldar tekjur meðalverkamanns. Í dag þéni forstjórarnir rúmlega fimm hundruð sinnum meira en venjulegir starfsmenn. Önnur rannsókn sýnir að stjórnendurnir hafi "bara" fjögur hundruð sinnum hærri tekjur en pöpullinn.

Sama þróun hefur átt sér stað annars staðar á Vesturlöndum. Til dæmis höfðu sænskir forstjórar tíföld laun venjulegra starfsmanna fyrir aldarfjórðungi. Tuttugu árum síðar voru tekjur þeirra þrjátíu og tvisvar sinnum meiri. Athugið að tekjumunur eykst minna í hinni kratísku Svíþjóð en í sæluríki markaðarins, Bandaríkjunum. Þar í landi hefur kaupmáttur launa flestra íbúanna staðið í stað eða jafnvel minnkað síðustu áratugi. Flest bendir til þess að þeir verst stæðu búi við lakari kjör nú en á árunum fyrir frjálshyggjubyltingu Reagans. Því er ekki furða þótt nú vaxi fram enn-ný vinstrihreyfing víða um lönd nema náttúrlega á Íslandi, markaðstrúarlandinu.

Það er einmitt markaðsmennska íslenskra fjölmiðla sem er meginefni þessa pistils. Verjendur Baugs segja kannski að almenningur hafi einfaldlega greitt atkvæði með Baugi. Fólk hafi af fúsum og frjálsum vilja keypt vörur í búðum Baugs. Svo hafi Baugsmenn fjárfest þetta vel fengna fé í fjölmiðlum sem aftur njóti hylli almennings. En á þessari rökfærslu er meinbugur, jafnvel mein-baugur. Í fyrsta lagi höfum við enga tryggingu fyrir því að það fé sem okkur áskotnast í frjálsum viðskiptum sé vel fengið. Kannski höfum við óafvitandi þénað á viðskiptum við stórglæpamenn. Ef til vill fara allir bankaræningjar á Íslandi beint í Bónus og versla þar þangað til þeir detta niður úr þreytu. Bónusi er náttúrlega engin þægð í þess lags viðskiptum. En því miður er ógerlegt að fylgjast með því hvernig bófar nota sitt illa fengna fé. Í öðru lagi hafa fæstir viðskiptavina Baugs verslað við fyrirtækið í þeim tilgangi að gera Baugsmönnum kleift að kaupa mörg helstu fjölmiðlafyrirtæki landsins. En kúnnar Bónuss hafa óafvitandi stuðlað að þess lags kaupum. Í hvert sinn sem kerling í Breiðholtinu kaupir lambalæri í Bónus eflir hún fjölmiðlaveldi Baugs. Og það jafnvel þótt kerla sé fylgjandi frumvarpinu víðkunna. Í þriðja lagi eru sum af fjölmiðlafyrirtækjum Baugs rekin með bullandi tapi. Almenningur hefur sem sagt hafnað þeim en Baugsmenn nota gróða af öðrum atvinnurekstri til að verja fjölmiðla sína falli. Forþénustan af lambalærinu sem kerlingin keypti kemur hér að góðu haldi.

Af þessu má sjá að alþýða manna hefur ekki greitt atkvæði með fjölmiðlaveldi Baugs. Reyndar má líka læra af þessu dæmi að meint lýðræði markaðarins hefur ýmsa slæma galla, engu færri en hið pólitíska lýðræði. Pólitískar kosningar geta leitt til þess að enginn kjósandi fái þá útkomu sem hann vill. Bót er í máli að kosningarétturinn er venjulega jafn. Því er ekki að heilsa á markaðnum. Hinir ríku hafa miklu fleiri "atkvæði" en þeir fátæku. Þess utan getur "atkvæðagreiðsla" á markaði skapað tekjudreifingu sem fæstir vilja. Maðurinn sem kaupir vörur af fyrirtæki X gæti með því móti stuðlað að því óafvitandi að forstjórar þess fái fimm hundruð sinnum hærri tekjur en verkamennirnir. Um leið er þessi maður algerlega á móti svo miklum tekjumun. Í ofanálag getur "markaðslýðræði" leitt til þess að þeir sem hagnast á "atkvæðum" neytandans noti gróðann til að fremja myrkraverk. Skemmst er þess að minnast að United Fruit Company notaði hagnað sinn til að velta réttkjörinni ríkisstjórn í Guatemala úr sessi. Varla hafa viðskiptavinir fyrirtækisins greitt atkvæði með valdaráninu. Enda höfðu fæstir þeirra færi á að vita hvernig fé þeirra var notað.

Hið jákvæða við markaðslýðræði er að fyrirtækin eru viðkvæm fyrir gagnrýni og sniðgengi. Slíkt og þvílíkt getur eyðilagt ímynd þeirra og valdið þeim stórtapi. Þess vegna ættu stjórnarliðar fremur að hvetja til sniðgengis við Baug en freista þess að koma lögum yfir fyrirtækið. Ekki bætir úr skák að slík lagasetning nær vart tilgangi sínum. Auðvelt er að stofna leppfyrirtæki (Norðurmyrkur hf.!) sem á fjölmiðla að nafninu til.

Ég er svo heppinn að hafa ekki lengur kosningarétt á Íslandi. Því þarf ég ekki að taka afstöðu til frumvarpsins fræga. En ef ég hefði þann rétt myndi ég líklega skila auðu. Með því vildi ég lýsa vanþóknun minni á þeim hráskinnsleik sem báðir aðiljar leika í Baugsmálinu leiða.

Eftir Stefán Snævarr

Höfundur er prófessor í heimspeki við Háskólann í Lillehammer.