MONSOON-kvenfataverslunarkeðjan í Bretlandi hefur varað hluthafa við því að þeir muni þurfa að sætta sig við að fá engar arðgreiðslur af hlutafé sínu næstu árin.

MONSOON-kvenfataverslunarkeðjan í Bretlandi hefur varað hluthafa við því að þeir muni þurfa að sætta sig við að fá engar arðgreiðslur af hlutafé sínu næstu árin. Mun féð sem með þessu sparast verða notað til að fjármagna erlendan vöxt fyrirtækisins og til að borga fyrir kaup á 21 fyrrverandi Dixon-verslun . Kemur þetta fram á fréttavef Guardian.

Tilkynning stjórnar fyrirtækisins staðfesti það sem hluthafar óttuðust að myndi gerast í kjölfar þess að stofnandi Monsoons, Peter Simon, jók hlut sinn í fyrirtækinu yfir 75% og flutti fyrirtækið á AIM-markaðinn, sem er markaður fyrir smærri fyrirtæki.

Guardian hefur eftir markaðssérfræðingnum Richard Ratner að hugsanlegt sé að stjórn Monsoon sé ekki að gæta hagsmuna hluthafa sem ekki séu meðlimir í Simon-fjölskyldunni.

Monsoon er með verslun hér á landi auk Rússlands, Danmerkur og Sádi-Arabíu.