SKULDIR heimila á Vesturlöndum hafa aldrei verið hærra hlutfall af ráðstöfunartekjum og ógnar það hagvexti í ýmsum ríkjum, að mati alþjóðlega matsfyrirtækisins Fitch Ratings .

SKULDIR heimila á Vesturlöndum hafa aldrei verið hærra hlutfall af ráðstöfunartekjum og ógnar það hagvexti í ýmsum ríkjum, að mati alþjóðlega matsfyrirtækisins Fitch Ratings . Í Financial Times er vitnað til skýrslu Fitch um skuldir heimilanna, en þar kemur fram að í iðnríkjunum sé hlutfall skulda af ráðstöfunartekjum heimila nú um 115%, en hafi verið um 90% árið 1990. Skuldir íslenzkra heimila voru um 180% af ráðstöfunartekjum í lok síðasta árs, samkvæmt tölum frá Seðlabankanum.

Fitch nefnir sérstaklega lönd á borð við Ástralíu og Ísland , þar sem erlend lán banka til að fjármagna lántökur heimila dragi úr lánshæfi á alþjóðlegum mörkuðum. Haft er eftir Sharo Raj, greinanda hjá Fitch, að hækkandi skuldir heimilanna séu einn þeirra þátta, sem hægi á hagvexti.

Financial Times vitnar jafnframt til Cary Leahey, yfirhagfræðings hjá Deutsche Bank, sem telur að á næstu árum muni draga úr neyzlu heimilanna. Hækkandi vextir hafi í för með sér að fólk verði að greiða af lánum sínum fremur en nota fé til neyzlu.