Þessi herramaður kunni vel við sig í leðjunni.
Þessi herramaður kunni vel við sig í leðjunni.
Hróarskelduhátiðinni lauk í gær og var þetta í 34. skipti sem hátíðin var haldin. Rigningin spilaði stórt aukahlutverk í ár og reyndi sannarlega á langlundargeð gesta.

Hróarskelduhátiðinni lauk í gær og var þetta í 34. skipti sem hátíðin var haldin. Rigningin spilaði stórt aukahlutverk í ár og reyndi sannarlega á langlundargeð gesta. Þrátt fyrir að einhver einkennileg rómantík fylgi því að sjá blaðskellandi fólk, drullugt upp fyrir haus, á myndum frá einhverri viðlíka hátíð, er annað uppi á teningnum þegar maður fær að reyna það sjálfur. Reglulega var fólk að skáskjóta sér á milli tónleika- og matartjalda til að leita skjóls undan hlussudropum og meðfylgjandi leðjan dró stórlega úr yfirferðinni hjá fólki.

Engu að síður er þessi staðreynd aukaatriði. Því umfram allt er Hróarskelduhátíðin upplifun og í því tilliti hrekkur rigningarsuddi eins og vatn af gæs þegar allt er saman dregið. Það sem fólk fær út úr þessu byggist á einhvers konar samlegðaráhrifum margra hluta og tónlistin, eins stór þáttur og hún vissulega er, virkar sem eins konar límband utan um allt hitt. Það sem smýgur hvað mest inn í fólk hérna er samhygðin yfir hátíðinni enda allir komnir hingað í svipuðum tilgangi. Eins "hippískt" og það kann að hljóma en þannig er þetta nú bara. Yfirlýst markmið hátíðarskipuleggjara er að reyna eftir föngum að halda "góða" hátíð og allt kapp því lagt á að allt sé á hreinu. Danirnir eru kannski "ligeglad" en af þessari hátíð að dæma eru þeir líka afskaplega skipulagðir og reglufastir.

Vinur minn einn hér á hátíðinni benti mér á það að hátíð sem þessi væri afskaplega líkamleg. Þetta væri meira "carnival" en "festival" en orðstofninn carn vísar í hold. Það er margt til í þessu; því hér er mikið dansað og hlegið, maður er á stöðugu labbi á milli tjalda á milli þess sem er drukkið og borðað. Líkaminn gerir bæði þægilega og óþægilega vart við sig á svona hátíðum og það reynir á hann, á lokadaginn til dæmis sést það utan á flestum hátíðargestum að þeir eru orðnir úrvinda, komnir í löturhægt mók en þó með bros á vör. Það að komast í bað og á salerni er þá gríðarstór þáttur í því að "lifa" af á svona hátíð. Og fnyknum sem steig upp af drullunni í ár verður ei komið í orð. Manni varð óneitanlega hugsað til Ilmsins eftir Süskind. Það er eitthvað mjög frumstætt við svona hátíð, þó að gemsar, stafrænar myndavélar og fartölvur séu hér út um allt.

Hróarskelduhátíðin er tónlistarhátíð þar sem hinir ýmsu geirar dægur/alþýðutónlistar eru langmest áberandi. Aðalsviðin eða tjöldin eru sex og það er eitthvað í gangi á þeim öllum á sama tíma og því ekki mögulegt að komast yfir allt sem hugurinn girnist. Fyrir þá áhugasömustu er þetta næstum því pirrandi en að sama skapi er lítill möguleiki á að maður finni ekkert við sitt hæfi þar sem breiddin er svo mikil.

Tilfinning mín fyrir hátíðinni í ár var sú að hún væri ekki eins vel mönnuð og undanfarið en um leið og maður var farinn af stað á milli tjaldanna, blaðandi í dagskránni, hrönnuðust upp atriðin sem maður varð að sjá. Skiptingin á milli tjaldanna þjónar þá mismunandi þörfum gesta, maður getur dillað sér við karabíska hryntónlist, skekið hausnum við argasta þungarokk eða strokið sér um hökuna á meðan maður fylgist með nýjustu nýbylgjuundrunum. Sumir gestanna, og þetta er dagsatt, fara þá ekki einu sinni inn á tónleikasvæðið heldur sitja við tjaldið sitt allan liðlangan daginn og draga inn áðurnefndan Hróarskelduanda - jafnsáttir með hátíðina og næsti maður. Besta birtingarmyndin á því að Hróarskelda snýst kannski á endanum mest um lífsins list. Eins "hippískt" og það kann að hljóma.