ÞORSTEINN Ingvarsson, 16 ára piltur úr Héraðssambandi Suður-Þingeyjasýslu, bætti í gær Íslandsmet sveina, 15-16 ára, í þrístökki á Göteborg Youth Games, stóru frjálsíþróttamóti sem lauk í Gautaborg í gær.

ÞORSTEINN Ingvarsson, 16 ára piltur úr Héraðssambandi Suður-Þingeyjasýslu, bætti í gær Íslandsmet sveina, 15-16 ára, í þrístökki á Göteborg Youth Games, stóru frjálsíþróttamóti sem lauk í Gautaborg í gær. Þorsteinn stökk 14,20 metra og bætti með því 41 árs gamalt met Sigurðar Hjörleifssonar um 44 sentimetra en Sigurður, betur þekktur í körfuboltaheiminum á síðari árum, stökk 13,76 metra árið 1963. Þorsteinn keppti í 17 ára flokki á mótinu og hafnaði í þriðja sæti. Á föstudag setti Þorsteinn glæsilegt met í langstökki á sama móti.

Ásdís Hjálmsdóttir sigraði í kringlukasti 19 ára í gær og vann því þrjár kastgreinar á mótinu og Einar Lárusson vann 100 metra grindahlaup í flokki 14 ára drengja. Önnur helstu úrslit hjá Íslendingum á mótinu í Gautaborg er að finna á B8.