SNÆFELLINGAR hafa gengið frá munnlegu samkomulagi við bandaríska körfuknattleiksmanninn Leon Brisport um að leika með liðinu í úrvalsdeildinni næsta vetur.

SNÆFELLINGAR hafa gengið frá munnlegu samkomulagi við bandaríska körfuknattleiksmanninn Leon Brisport um að leika með liðinu í úrvalsdeildinni næsta vetur. Brisport lék í fyrra með Þór úr Þorlákshöfn og gerði 23 stig að meðaltali í leik og tók 289 fráköst í deildinni.

Snæfellingar ætla sér stóra hluti næsta vetur en þeir léku til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti í vor. "Við erum búnir að fá Ingvald Magna Hafsteinsson úr KR og Pálma Sigurgeirsson úr Breiðabliki til okkar og núna Brisport. Við vorum komnir með munnlegt samkomulag við annan leikmann, en það virðist hafa fjarað út þannig að við verðum að halda áfram að leita," sagði Bárður Eyþórsson, þjálfari Snæfells, í samtali við Morgunblaðið í gær.

Enginn þeirra erlendu leikmanna sem léku með Snæfelli í fyrra verða áfram. Sagði Bárður að mannskapurinn yrði annars sá sami og í fyrra. "Hafþór Einarsson er reyndar líklega á leið til Borgarness þó svo við vildum gjarnan hafa hann hérna hjá okkur," sagði þjálfarinn.