Angelos Charisteas, sóknarmaður Grikkja, stekkur upp og skorar sigurmarkið gegn Portúgölum í úrslitaleiknum með óverjandi skalla enda markvörðurinn víðs fjarri.
Angelos Charisteas, sóknarmaður Grikkja, stekkur upp og skorar sigurmarkið gegn Portúgölum í úrslitaleiknum með óverjandi skalla enda markvörðurinn víðs fjarri. — AP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ANGELOS Charisteas er þjóðhetja í Grikklandi. Hann skoraði eina mark úrslitaleiks Grikkja og Portúgala á Evrópumótinu í knattspyrnu sem lauk í Portúgal í gærkvöldi. Markið tryggði Grikkjum Evrópumeistaratitilinn í fyrsta sinn, nokkuð sem enginn, og síst Grikkir sjálfir, áttu von á þegar flautað var til leiks þessara sömu þjóða í fyrsta leik mótsins 12. júní. Sumir taka svo djúpt í árinni aðsegja að þetta sé það óvæntasta sem gerst hefur í evrópskri knattspyrnu.

Áður en Grikkir mættu til leiks í mótinu höfðu þeir aldrei unnið leik á stórmóti en byrjuðu á að leggja gestgjafana, 2:1, og enduðu á að leggja sömu gestgjafa, 1:0, í úrslitaleiknum. Á leið að titlinum lögðu Grikkir lið Frakka sem voru Evrópumeistarar, 1:0, og Tékka einnig 1:0, en margir töldu Tékka með skemmtilegasta lið keppninnar.

Úrslitin þýða að Luiz Felipe Scolari, þjálfari Portúgals, sem gerði Brasilíumenn að heimsmeisturum, mistókst að verða fyrsti þjálfarinn til að vera þjálfari heimsmeistara og Evrópumeistara með sitt hvoru liðinu.

Otto Rehhagel, hinn þýski þjálfari nýju Evrópumeistaranna, skrifaði nafn sitt í sögu keppninnar því að hann er fyrsti erlendi þjálfarinn til að vinna titilinn. Hingað til hafa ætíð verið heimamenn við stjórnvölinn hjá því liði sem hefur orðið Evrópumeistari.

Leikurinn í gær var ekki ósvipaður fyrri leikjum Grikkja, mótherjanum gekk ekkert að brjóta sterka vörn þeirra á bak aftur og ef heimamenn náðu skoti að marki þá var Antonios Nikopolidis markvörður tilbúinn á milli stanganna.

Markvörður heimamanna, Ricardo Pereira, gerði hins vegar afdrifarík mistök þegar Charisteas skoraði með skalla eftir hornspyrnu frá hægri. Hann fór af marklínunni til að handsama knöttinn, en komst ekki að honum, var fyrir aftan Charisteas sem skallaði í autt markið. Ekki ósvipað mark og Traianos Dellas gerði gegn Tékkum í undanúrslitum.

Veruleg hætta skapaðist ekki við mörk liðanna þó svo þau fengju bæði hálffæri. Sem fyrr voru Grikkir gríðarlega grimmir í vörninni, Ronaldo komst hvorki lönd né strönd gegn Seitaridis á vinstri vængnum og Fyssas og Basinas voru aldrei langt frá Figo hinum megin og komu í veg fyrir að hann gæti nýtt snilli sína.

Síðari hálfleikur var svipaður þeim fyrri, Ronaldo átti fínt skot rétt eftir að Grikkir skoruðu, en Nikopolidis var á réttum stað sem fyrr.

Scolari bætti við sóknarmönnum hjá Portúgölum en allt kom fyrir ekki. Figo átti reyndar frábært skot úr þröngri stöðu í vítateignum og Ronaldo komst einn gegn markverðinum þegar stundarfjórðungur var eftir, en skaut yfir. Hann var aftur á ferðinni skömmu síðar, en Dellas komst fyrir skot hans og bjargaði.

Gullna kynslóðin kveður

Hinn gullna kynslóð knattspyrnumanna í Portúgal kvaddi því án þess að sigra á stórmóti, en þeir Luis Figo og Rui Costa voru báðir í gullliði Portúgals sem varð heimsmeistari U-21 árs liða á þessum sama leikvangi árið 1991 og Fernando Couto hafði unnið til sömu verðlauna tveimur árum áður. Nú munu þremenningarnir trúlega hætta með landsliðinu og draumur þeirra rættist því ekki.

Portúgalar geta þó brosað gegnum tárin því að landslið þeirra sýndi að þar er á ferðinni gott lið og jafnframt ungt þannig að það er bjart framundan hjá þeim þar sem Cristiano Ronaldo fer fyrir liðinu. Hann er aðeins 19 ára, Simao er 24 ára, Postiga 21 og miðverðirnir Carvalho og Andrade eru 26 ára.

Portúgalar grétu í gærkvöldi. Grikkir grétu líka en munurinn var samt mikill. Í Grikklandi og meðal grískra áhorfenda í Lissabon voru það gleðitár sem streymdu niður kinnar fólks. Sá var munurinn.