* MARCEL Desailly , fyrirliði franska landsliðsins í knattspyrnu um árabil, sagði um helgina að hann hefði spilað sinn síðasta landsleik.

* MARCEL Desailly , fyrirliði franska landsliðsins í knattspyrnu um árabil, sagði um helgina að hann hefði spilað sinn síðasta landsleik. "Nú get ég ekki haldið áfram lengur, ég er ekki fær um að spila eins og ég gerði áður," sagði Desailly við franska íþróttadagblaðið L'Equipe. Desailly er 35 ára og var aðeins einu sinni í byrjunarliði í fjórum leikjum Frakka í úrslitakeppni EM í Portúgal .

* ÁSTRALSKI tenniskappinn Todd Woodbridge setti í gær met á Wimbledonmótinu í tennis þegar hann sigraði í tvíliðaleik í þriðja sinn með Jonas Björkman. Áður hafði Woodbridge unnið sex sinnum með Mark Woodforde og hefur því sigrað níu sinnum í tvíliðaleik á mótinu. Gamla metið áttu Doherty- bræður sem unnu síðast 1905.

* ANDY Roddick, sem tapaði úrslitaleiknum í einliðaleik karla, fannst verst að hann fengi ekki að fara í kvöldverð sigurvegaranna. Ástæðan var að hann langaði mikið til að sjá í hverju Maria Sharapova, sigurvegarinn í kvennaflokki, yrði.

* RODDICK gerði að gamni sínu við fréttamenn eftir úrslitaleikinn. "Ætli hún verði í síðum kjól, eða stuttum? Ég er svekktur að fá ekki að sjá það, en kannski lauma ég mér í partíið og kíki á þetta," sagði hann.

* ROGER Federer hefur nú sigrað þrívegis á stórmóti ætlar nú að einbeita sér að því að sigra á Ólympíuleikunum. "Mig hefur lengi dreymt um að keppa fyrir þjóð mína á Ólympíuleikum og ég tala nú ekki um ef ég næði að sigra," sagði Federer , sem tapaði í leik um bronsið á síðustu leikum í Sydney .

* ÞEGAR kappinn sigraði á Wimbledon í fyrra var vel tekið á móti honum í heimabæ hans í Sviss og þar fékk hann að gjöf kú sem síðan hefur eignast kálf. "Það er alveg nóg að vera með Juliettu og kálfinn hennar. Við verðum að bíða og sjá til hvort mér verður gefin önnur núna," sagði Federer .

* RETIEF Goosen, kylfingur frá Suður-Afríku, sem kom hingað til lands til að leika golf fyrir tveimur árum, sigraði af öryggi á Opna Evrópumótinu á K-Club vellinum á Írlandi um helgina. Kappinn lék á 13 undir pari en þrír næstu kylfingar voru á átta undir pari.

* GOOSEN lék síðasta hringinn á 68 höggum en besta skor dagsins átti annar Íslandsvinur, Justin Rose, sem lék á 65 höggum, sjö höggum undir pari. Hann hafði leikið illa fyrstu þrjá dagana þannig að þetta skor hans bjargaði því sem bjargað varð og hann endaði í 14.-19. sæti.

* UNDIR lok úrslitaleiks Grikkja og Portúgala komst áhorfandi inn á völlinn. Hann hljóp um hann með fána Barcelona og henti honum í Figo áður en hann hljóp inn í mark Grikkja .