"ÞAÐ er erfitt að sætta sig við þennan ósigur og við biðjum portúgölsku þjóðina afsökunar á því að hafa ekki náð því takmarki sem við stefndum að og vildum," sagði Luiz Felipe Scolari, hinn brasilíski þjálfari Portúgala, eftir ósigurinn gegn...

"ÞAÐ er erfitt að sætta sig við þennan ósigur og við biðjum portúgölsku þjóðina afsökunar á því að hafa ekki náð því takmarki sem við stefndum að og vildum," sagði Luiz Felipe Scolari, hinn brasilíski þjálfari Portúgala, eftir ósigurinn gegn Grikkjum í úrslitaleiknum í gærkvöld.

"Það er hart, mjög hart, að tapa á þennan hátt, og að spila á þennan hátt, án þess að skora mark. Grikkir unnu á varnarleiknum, þeir unnu vegna þess að þeir kunna fyrst og fremst að spila varnarleik. Þeir eru með stórkostlega vörn og eru stöðugt tilbúnir til að refsa andstæðingunum fyrir mistök sín," sagði Scolari, sem átti möguleika á að verða annar þjálfarinn í sögunni, á eftir Helmut Schön frá Þýskalandi, til að vinna bæði heimsmeistara- og Evrópumeistaratitil. Brasilía varð heimsmeistari undir hans stjórn árið 2002. Eftir sigurinn á Hollendingum í undanúrslitum EM á miðvikudag var frá því gengið að hann þjálfaði lið Portúgals til ársins 2006.

"Ég vil koma því á framfæri við þjóðina að þessi ósigur er enginn endir fyrir okkur. Við erum silfurverðlaunahafar í Evrópukeppni, við munum halda áfram að byggja ofan á það og við munum vinna sigra í framtíðinni," sagði Scolari.

Þegar hann var spurður um dómgæsluna svaraði hann: "Dómarinn dæmdi vel, gerði kannski einhver mistök síðustu 10 mínúturnar, en ég vil fyrst og fremst óska Grikkjum til hamingju. Það er kominn tími til að fótboltamenn hætti að kvarta yfir dómurum - svo ég óska bæði dómaranum og gríska liðinu til hamingju," sagði brasilíski þjálfarinn.