Þorbjörg Björnsdóttir hjá Icelandair afhenti Ármanni, bróður Helga Einars, flugmiðana fjóra.
Þorbjörg Björnsdóttir hjá Icelandair afhenti Ármanni, bróður Helga Einars, flugmiðana fjóra.
FLÍSAR verða teknar úr nýju hjarta Helga Einars Harðarsonar hjartaþega, sem er á sjúkrahúsi í Gautaborg, í dag og settar í ræktun.

FLÍSAR verða teknar úr nýju hjarta Helga Einars Harðarsonar hjartaþega, sem er á sjúkrahúsi í Gautaborg, í dag og settar í ræktun. Rannsókn á þeim mun leiða í ljós hvort líkami Helga hafnar á einhvern hátt þessu nýja líffæri sem var grætt í hann fyrir þremur vikum. Hjartað kom mjög vel út úr síðustu sýnatöku sem var framkvæmd og Helgi segist bjartsýnn á framhaldið. "Ef það kemur hreint út úr þessari sýnatöku má ég búast við að fá að yfirgefa spítalann og fara í íbúð sem við höfum fengið hér. Mér líður ofsalega vel og hjartað slær ljúft. Nýrnastarfsemin kemur jafnframt vel út og læknarnir eru í sjöunda himni," segir Helgi og bætir við að hann sé strax orðinn allt annar en hann var fyrir aðgerðina. "Mig vantar kannski helst meiri vöðva því ég hafði þá ekki fyrir. Í morgun labbaði ég í 40 mínútur og var svo á þrekhjólinu í 20 mínútur. Sársaukinn er að minnka og allt að verða eðlilegra."

Helgi segir að það sé mest hætta á að líkaminn hafni hjartanu fyrstu mánuðina eftir aðgerðina. "Það er samt mjög gott ef það gerist ekki á fyrstu vikunum því þá er maður betur undir það búinn. Ég þarf að passa mig á kvefi og flensu og öllu utanaðkomandi."

Móðir Helga hefur verið með honum í Gautaborg frá upphafi aðgerðarinnar en faðir hans, bróðir, mágkona og bróðurdóttir komu í heimsókn í gær í boði Icelandair. "Það er svakalegur styrkur fyrir mig að fá þau í heimsókn," segir Helgi.