DANSKI bankinn Jyske Bank hefur verið sýknaður af kröfu Henriks Thomsens um að bankinn greiði honum andvirði skuldabréfs sem hann lagði inn sem tryggingu fyrir láni, að því er kemur fram í frétt vefmiðils Jyllands-Posten .

DANSKI bankinn Jyske Bank hefur verið sýknaður af kröfu Henriks Thomsens um að bankinn greiði honum andvirði skuldabréfs sem hann lagði inn sem tryggingu fyrir láni, að því er kemur fram í frétt vefmiðils Jyllands-Posten.

Thomsen segist hafa njósnað fyrir bresk og svissnesk stjórnvöld og að skuldabréfið, sem var 50.000 Bandaríkjadala virði, hafi verið greiðsla fyrir veitta þjónustu við svissnesku leyniþjónustuna. Var skuldabréfið afhent með leynd í flugstöðinni í München. Hann notaði það svo sem tryggingu fyrir láni hjá Jyske Bank upp á 200.000 danskar krónur . Bankinn veitti lánið, en segist svo hafa komist að því að skuldabréfið væri falsað og því ekki virði pappírsins sem það var prentað á. Féllst dómurinn á það eftir að hafa heyrt framburð vitna og séð ljósrit af skuldabréfinu fræga. Athyglisvert þykir að svo umdeilt skjal sem þetta var ekki lagt fram sem sönnunargagn í málinu, en frumritið tapaðist í flóði í Hørsholm-útibúi bankans.

Peter Regli, fyrrverandi yfirmaður svissnesku leyniþjónustunnar, hefur áður lýst því yfir að hann hafi ráðið Thomsen sem njósnara í Danmörku. Lögmaður Thomsens segir að fái skjólstæðingur hans gjafsókn frá ríkinu verði dómnum áfrýjað. Thomsen skuldar bankanum ennþá 123.000 krónur danskar.