KEFLVÍKINGAR voru ágætlega heppnir þegar dregið var í Evrópubikarinn í körfuknattleik á laugardaginn, en þar taka þeir nú þátt öðru sinni, stóðu sig mjög vel í fyrra.

KEFLVÍKINGAR voru ágætlega heppnir þegar dregið var í Evrópubikarinn í körfuknattleik á laugardaginn, en þar taka þeir nú þátt öðru sinni, stóðu sig mjög vel í fyrra. Liðin sem Keflvíkingar eru með í riðli eru dönsku meistararnir í Bakken Bears frá Árósum, Reims frá Frakklandi og CAB Madeira frá Portúgal, en Keflvíkingar voru einnig með þeim í riðli í fyrra, unnu þá hér heima með tíu stigum en töpuðu með einu stigi ytra.

"Við erum mjög ánægðir með þennan drátt og stefnan er sett á annað sætið í riðlinum og þar með að komast áfram," sagði Hrannar Hólm sem var viðstaddur dráttinn í München.

Leikið er í þremur riðlum í Evrópubikarnum og komast tvö lið áfram úr hverjum þeirra og síðan þau tvö úr riðlunum öllum sem eru með hæsta vinningshlutfallið.

"Mér sýnist raunhæft að stefna á annað sætið. Danirnir eru álíka og við og það verða skemmtilegir leikir. Við eigum að geta unnið Madeira eins og í fyrra, en Frakkarnir eru trúlega sterkastir," sagði Hrannar.

Fyrsti leikurinn verður hér heima 3. nóvember við Reims og næstu tvær vikur á eftir verður einnig leikið í Keflavík. "Við förum síðan út og leikum tvo leiki í annarri ferðinni og einn í hinni," sagði Fannar.