* SIGURVIN Ólafsson lék sinn fyrsta leik með KR á þessu keppnistímabili þegar Íslandsmeistararnir sigruðu Njarðvík , 3:1, í bikarkeppni KSÍ á föstudagskvöldið. Sigurvin hefur verið frá vegna þrálátra meiðsla í allan vetur og vor.

* SIGURVIN Ólafsson lék sinn fyrsta leik með KR á þessu keppnistímabili þegar Íslandsmeistararnir sigruðu Njarðvík , 3:1, í bikarkeppni KSÍ á föstudagskvöldið. Sigurvin hefur verið frá vegna þrálátra meiðsla í allan vetur og vor. Hann lék síðustu 25 mínútur leiksins.

* ARNLJÓTUR Ástvaldsson kom líka við sögu hjá KR í leiknum í Njarðvík en þetta var hans fyrsti leikur síðan hann slasaðist illa í leik með Þór á Akureyri fyrir rúmu ári en hann var þá þar í láni frá KR .

* GUÐMUNDUR Andri Bjarnason skoraði mark Grindavíkur gegn Fylki í 16 liða úrslitum bikarkeppninnar á föstudag, ekki Alfreð Jóhannsson eins og sagt var í blaðinu á laugardag. Það rétta er að Guðmundur Andri sá um að koma boltanum endanlega yfir marklínuna eftir skalla Alfreðs og hasar í markteig Fylkis . Það breytti þó litlu, Fylkir vann 4:1 og komst í 8 liða úrslit.

* HREFNA Jóhannesdóttir skoraði fyrra mark Medkila þegar liðið vann Klepp , 2:1, í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í síðustu viku. Þetta var fyrsti sigur Medkila á tímabilinu og hann kom liðinu úr botnsætinu í fyrsta skipti. Sælan var þó skammvinn, Medkila steinlá gegn botnliði Arna-Björnar , 6:0, um helgina og situr í neðsta sætinu á ný, er með 4 stig eftir 10 umferðir.

* VEIGAR Páll Gunnarsson lék síðari hálfleikinn með Stabæk sem gerði 0:0 jafntefli við Odd Grenland í norsku úrvalsdeildinni í gær. Hannes Þ. Sigurðsson lék síðasta stundarfjórðunginn með Viking sem tapaði fyrir Tromsö á heimavelli, 1:2.

* ZDRAVKO Zdravkov, sem varði mark Búlgaríu á EM í Portúgal , er genginn til liðs við tyrkneska liðið Rizespor . Hann lék síðast með Litex Lovech í heimalandi sínu en spilaði áður í Tyrklandi með Istanbulspor og Adanaspor .

* MIKAEL Nilsson , miðjumaður sænska landsliðsins í knattspyrnu, er á leið til Southampton í Englandi . Ekki er ljóst hvort félagið greiði Halmstad til að fá hann strax eða bíði eftir því að samningur hans renni út í nóvember. Fyrir hjá Southampton eru tveir félagar Nilssons úr sænska landsliðinu, Anders Svensson og Michael Svensson .

* MICHAEL Reiziger , bakvörður hollenska landsliðsins og Barcelona , staðfesti í gær að hann myndi ganga til liðs við Middlesbrough , en hann er laus undan samningi sínum við spænska liðið. Hann valdi Middlesbrough framyfir spænsku meistarana Valencia þar sem hann vildi komast í ensku úrvalsdeildina eftir sjö ára dvöl á Spáni .