[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SUNNA Gestsdóttir bætti 19 ára gamalt Íslandsmet í 100 metra hlaupi kvenna á móti í Gautaborg, Göteborg Youth Games, á laugardaginn. Sunna, sem sigraði í hlaupinu á 11,90 sekúndum, setti metið í undanrásum þegar hún hljóp vegalengdina á 11,76 sekúndum. Hún hljóp í örlitlum mótvindi, 0,2 metrum á sekúndu, sem gerir þennan árangur hennar enn athyglisverðari. Fyrra metið sem Svanhildur Kristjónsdóttir setti árið 1985 var 11,79 sekúndur en besti árangur Sunnu fyrir þetta mót var 11,93 sekúndur.

Sunna var orðin mjög líkleg til að ná metinu af Svanhildi því hún hljóp á betri tíma fyrir stuttu, í aðeins of miklum meðvindi," sagði Egill Eiðsson, framkvæmdastjóri Frjálsíþróttasambands Íslands, við Morgunblaðið í gær. Hann sagði að Ólympíulágmarkið væri væntanlega of langsótt fyrir Sunnu en það er 11,35 sekúndur.

Sunna keppti einnig í langstökki á mótinu og varð önnur, stökk 6,15 metra sem er hennar besti árangur á þessu ári, en Íslandsmet hennar er 6,30 metrar. Ólympíulágmarkið er 6,55 metrar. "Ég hefði viljað sjá Sunnu komast nær lágmarkinu og hún á að geta það því hún stökk 6,49 metra í meðvindi í fyrra," sagði Egill.

Vigdís Guðjónsdóttir sigraði í spjótkasti kvenna á mótinu, kastaði 49,61 metra.

*Íslenskir keppendur stóðu sig mjög vel í yngri aldursflokkum mótsins og unnu nokkrar greinar. Íris Anna Skúladóttir vann 1.500 metra hlaup 16-17 ára, Sigurbjörg Ólafsdóttir vann langstökk 18-19 ára, Ásdís Hjálmsdóttir sigraði í spjótkasti og kúluvarpi 18-19 ára, Sveinn Elías Elíasson sigraði í spjótkasti 15 ára og Bryndís Hrafnkelsdóttir í spjótkasti 13 ára. Þorsteinn Ingvarsson vann glæsilega sigur í langstökki 16-17 ára eins og fram kom í laugardagsblaðinu, og náði fjórða besta árangri Íslendings frá upphafi.