EINAR Long, kylfingur úr GHR, og Þórdís Geirsdóttir úr Keili, urðu um helgina Íslandsmeistarar í golfi 35 ára og eldri en mótið var haldið á Strandarvelli við Hellu. Keppnin var mjög jöfn og spennandi því í 1.

EINAR Long, kylfingur úr GHR, og Þórdís Geirsdóttir úr Keili, urðu um helgina Íslandsmeistarar í golfi 35 ára og eldri en mótið var haldið á Strandarvelli við Hellu.

Keppnin var mjög jöfn og spennandi því í 1. flokki karla voru fjórir keppendur efstir og jafnir fyrir þriðja og síðasta hring og í 1. flokki kvenna voru tvær konur efstar og jafnar fyrir síðasta hring.

Keiliskonurnar Anna Jódís Sigurbergsdóttir og Þórdís Geirsdóttir voru jafnar fyrir síðasta hring, báðar á 150 höggum. Einvígi þeirra hélt áfram á síðasta hring, en stúlkurnar hófu leik á tíunda teig og voru jafnar, 13 yfir pari eftir níu holur. En þá skildu leiðir. Þórdís lék af öryggi og lauk síðari níu holunum á einu höggi undir pari á meðan Anna Jódís lék holunar á 7 höggum yfir pari.

Þarna sagði reynsla Þórdísar örugglega til sín því hún tryggði sér þarna Íslandsmeistaratitil kvenna í þessum aldursflokki fimmta árið í röð.

Í 1. flokki karla var keppnin einnig æsispennandi. Björgvin Þorsteinsson, GV, Ólafur Hreinn Jóhannesson, GSE, Einar Long, GHR, og Sváfnir Hreiðarsson, GR voru allir jafnir á 141 höggi samanlagt, eða einu höggi yfir pari vallarins.

Þegar síðasti ráshópur hafði lokið 14 holum var Ólafur á einu höggi yfir pari og átti högg á Einar og tvö á Björgvin.

Eftir fimmtándu voru þeir allir jafnir en síðan fékk Ólafur skolla á 16. á meðan Björgvin og Einar fengu fugl. Einar fékk síðan tvö pör en Björgvin skolla á sautjándu og þar með fagnaði Einar meistaratitlinum í fyrsta sinn.