RÓBERT Marshall, formaður Blaðamannafélags Íslands, segist fagna því að fjölmiðlalögin verði afturkölluð en hafa áhyggjur af því að menn ætli að leika sama leikinn og í vor og keyra málið í gegn á sumarþingi.

RÓBERT Marshall, formaður Blaðamannafélags Íslands, segist fagna því að fjölmiðlalögin verði afturkölluð en hafa áhyggjur af því að menn ætli að leika sama leikinn og í vor og keyra málið í gegn á sumarþingi.

"Fyrir það fyrsta fagnar maður því að ákveðið hafi verið að afturkalla fjölmiðlalögin. Nú blasir við að það boð sem Blaðamannafélag Íslands lagði fram í janúar síðastliðnum um að koma að starfi ríkisstjórnarinnar og undirbúningi að lögum um eignarhald á fjölmiðlum er endurnýjað og við lýsum okkur reiðubúin að koma að þeirri vinnu sem fram undan er."

Spurður um þær efnislegu breytingar sem ríkisstjórnin boðar með nýjum lögum, segir Róbert þær valda sér áhyggjum.

"Þær benda til þess að menn ætli að endurtaka leikinn frá því í vor og keyra málið í gegn á stuttu sumarþingi frekar en að taka það til efnislegrar umfjöllunar á næstu mánuðum og afgreiða það í haust sem væri í lófa lagið að gera."

Róbert segist mjög gjarnan hafa viljað fá þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin eins og stefnt var að.

Hann segist vona að menn endurtaki ekki sömu mistök og þeir gerðu áður og fari hægar í sakirnar og reyni að ræða við þá sem málið varðar.

"Blaðamannafélag Íslands hefur alla tíð lýst sig reiðubúið að taka þátt í þessu starfi. Við höfum alls ekki útilokað löggjöf um fjölmiðla, heldur fyrst og fremst lýst okkur ósátt við starfsaðferðina, sem notuð var við lagasetninguna," segir Róbert.