Húsnæði fyrrverandi Heyrnleysingjaskólans, sem síðar hét Vesturhlíðarskóli.
Húsnæði fyrrverandi Heyrnleysingjaskólans, sem síðar hét Vesturhlíðarskóli. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
GUNNAR Salvarsson, skólastjóri Heyrnleysingjaskólans árin 1986-96, telur dóm í máli manns, sem dæmdur var fyrir kynferðisbrot gegn tveimur dætrum sínum, og fékk að mestum hluta skilorðsbundinn dóm vegna erfiðra aðstæðna, þar sem hann segist hafa orðið...

GUNNAR Salvarsson, skólastjóri Heyrnleysingjaskólans árin 1986-96, telur dóm í máli manns, sem dæmdur var fyrir kynferðisbrot gegn tveimur dætrum sínum, og fékk að mestum hluta skilorðsbundinn dóm vegna erfiðra aðstæðna, þar sem hann segist hafa orðið fyrir daglegu kynferðisofbeldi á heimavist Heyrnleysingjaskólans árin 1976-1984, vera býsna fjarstæðukenndan. Hann telur vafasamt að milda dóminn vegna frásagnar hans. "Hún er tekin gild, og ekki studd neinum vitnum. Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir um mjög gróft ofbeldi. Gerendur í því ofbeldi eru sagðir vera starfsmenn skólans," segir Gunnar í samtali við Morgunblaðið.

Gunnar fullyrðir að enginn karlmaður hafi starfað á heimavist skólans samfleytt þau átta ár sem tilgreind eru í dómnum. Ef litið sé svo á að um aðra starfsmenn skólans hafi verið að ræða, þá sé einungis um að ræða fimm til sex karlmenn. "Dómurinn kastar, eins og hann kallar sjálfur, björgunarhring til ákærða, en er þá um að leið að varpa þessari sök, um þetta grófa ofbeldi, yfir á fáa einstaklinga í samfélaginu. Það er mjög alvarlegt mál," segir Gunnar.

Nauðsynlegt að áfrýja dómnum

"Það er að mínu mati nauðsynlegt eftir að þessi dómur er fallinn að annar hvor málsaðili áfrýi. Það væri í raun eðlilegt að ríkissaksóknari áfrýjaði þar sem þarna eru miklar ásakanir í garð stjórnvalda um menntastefnu í Heyrnleysingjaskólanum á sínum tíma, og í garð fáeinna karlmanna sem voru í starfi í Heyrnleysingjaskólanum á þeim tíma þar sem barnaníðingur á að hafa verið þar daglega að verki," segir Gunnar ennfremur.

"Það er hægt að lesa það út úr dómnum, að það sé með einhverju móti hægt að yfirfæra þá samfélagslegu viðurkenningu á táknmálinu og stöðu heyrnarlausra í dag ein 20-40 ár aftur í tímann, og segja að það sé smánarblettur á þjóðfélaginu að hafa haft þessa talmálsstefnu á sínum tíma," bætir hann við.

Gunnar segir lýsingar dómsins á aðstæðum heyrnarlausra á þann veg, að honum sé verulega brugðið. "Þeim er lýst eins og þarna hafi verið í skólanum upp til hópa vont fólk, einhvers konar illþýði og barnaníðingar, og jafnvel kennarar sem hafi lagt sig fram um það að skilja ekki börnin, því að aðalröksemdafærsla dómsins gengur út á það, að ákærði segir ekki frá þessu af því að það var enginn til að skilja hann í skólanum. Það er svo ótrúleg staðreyndavilla, og fæst engan veginn staðist. Þarna hefur á öllum tímum verið fólk sem hefur skilið börnin.

Flestir sem þá stjórnuðu skólanum eru nú fallnir frá, en helguðu líf sitt heyrnarlausum, eins og Brandur heitinn Jónsson skólastjóri. Kennararnir gerðu það besta fyrir heyrnarlausa eins og þekking þess tíma sagði þeim. Þegar ég tók við skólanum 1986 eru komin önnur viðhorf og táknmálið er tekið upp, er sett á stundaskrá sem sjálfstæð námsgrein, heyrnarlausum fjölgað í kennarahópnum og krafist opinberrar viðurkenningar á táknmáli sem móðurmáli heyrnarlausra.

Félag heyrnarlausra gengur að mínu mati of langt í því að gefa til kynna að illar hvatir hafi legið að baki þeirri skólastefnu sem var í gildi á þessum tíma," segir Gunnar.