Hér sést íþróttaleikvangurinn á Sauðárkróki ofan af nöfunum þar sem tjaldstæðin verða á landsmótinu um næstu helgi.
Hér sést íþróttaleikvangurinn á Sauðárkróki ofan af nöfunum þar sem tjaldstæðin verða á landsmótinu um næstu helgi. — Morgunblaðið/Skúli
LANDSMÓT Ungmennafélaganna, það 24. í röðinni, hefst á Sauðárkróki á fimmtudaginn og stendur fram á sunnudag. Þar munu tæplega 2.000 íþróttamenn reyna með sér í keppni og sameinast síðan í vináttu og bræðralagi að keppni lokinni. Að venju er keppt í mörgum íþróttagreinum og öðrum greinum sem sumir vilja ekki kalla íþróttir. En þannig hefur það ætíð verið á Landsmótum og verður vonandi áfram.

Allur aðbúnaður á Sauðárkróki er til mikillar fyrirmyndar. Glæsilegur frjálsíþróttavöllur með sex hlaupabrautum þar sem þrjár þær innstu eru upphitaðar. Stökkgryfjur eru fjórar þannig að hægt er að stökkva í allar áttir eftir því hvernig viðrar og það sama á við um stangarstökkið. Auðvitað nýtist völlurinn einnig sem knattspyrnuvöllur en við hlið aðalleikvangsins er góð aðstaða til að leika knattspyrnu á grasi.

Norðan við leikvanginn, steinsnar frá, er sundlaugin, sem vissulega er barn síns tíma og þar verður keppt á fjórum brautum þannig að það verður mikið synt og lengi á Sauðárkróki um helgina.

Sunnan við leikvanginn er síðan íþróttahúsið þar sem keppt verður í körfuknattleik og blaki ásamt fleiri greinum. Glæsileg aðstaða á litlu svæði sem gerir mótið væntanlega skemmtilegra fyrir vikið þar sem margt verður jafnan um manninn á þessu svæði.

Tjaldstæði eru uppi á svokölluðum nöfum, og af þeim er glæsilegt útsýni yfir bæinn og íþróttasvæðið. Aðeins tekur nokkrar mínútur að ganga af tjaldstæðinu niður á íþróttaleikvanginn.

En umfang móta sem þessa er orðið slíkt að fá byggðarlög hafa mannvirki til að hægt sé að koma mótinu fyrir á fjórum dögum. Það á einnig við um Sauðárkrók því í nokkrum greinum verður keppt í íþróttahúsinu að Varmahlíð og hestaíþróttir ásamt nokkrum öðrum greinum verða í hinni glæsilegu reiðhöll rétt innan við Sauðárkrók. Skotmenn verða líka aðeins utan við bæinn þar sem þeir skjóta leirdúfur, en sú keppni fer fram á skotsvæði Ósmanna rétt út með Skagafirðinum vestanverðum. Þar er sérlega fallegt umhverfi og friðsælt þannig að skotmenn geta svo sannarlega einbeitt sér að íþrótt sinni.

Það má með sanni segja að Sauðárkrókur sé miðstöð íþróttanna í sumar því auk þess að halda Landsmót UMFÍ þá verður þar einn riðill í Norðurlandamóti kvenna, 21 árs og yngri, í knattspyrnu og um verslunarmannahelgina verður haldið annað landsmót - Unglingalandsmótið. Það verður því líf og fjör á Króknum í sumar.

Skúli Unnar Sveinsson skrifar