Hjörtur Már og Ragnheiður við hluta af þeim bikurum sem veittir voru á SMÍ.
Hjörtur Már og Ragnheiður við hluta af þeim bikurum sem veittir voru á SMÍ. — Morgunblaðið/Jim Smart
HJÖRTUR Már Reynisson úr KR vann besta afrek Meistaramóts Íslands í sundi sem fram fór um helgina og Ragnheiður Ragnarsdóttir, SH, vann besta afrek konu á mótinu. Það var hins vegar sundfólkið úr Reykjanesbæ sem sigraði í liðakeppninni eftir harða og jafna keppni við Hafnfirðinga.

Hjörtur Már hlaut Pálsbikarinn fyrir besta afrek mótsins og Guðmundarbikarinn fyrir besta afrek karls á mótinu en það vann hann í 50 metra flugsundi þegar hann synti á 25,08 sekúndum, sem er jöfnun á Íslandsmetinu. Ragnheiður hlaut Kolbrúnarbikarinn fyrir besta afrek konu sem var 100 metra skriðsund, en það synti hún á 58,50 sekúndum og sigraði.

Flest sterkasta sundfólk landsins var með í mótinu þó svo það væri talsvert frá besta árangri sínum enda er sundfólkið í erfiðum undirbúningi fyrir sundkeppnina á Ólympíuleikunum í Aþenu. Þó má nefna að Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir, ÍA, var ekki fjarri Íslandsmetinu í 50 metra flugsundi, synti á 28,63 sekúndum og í 50 metra baksundi náði hún tímanum 30,98 sem er einnig ágætis tími og ekki langt frá Íslandsmetinu.

Hjörtur Már og Ragnheiður kepptu bæði í níu greinum á mótinu, sex einstaklingsgreinum og þremur boðsundum. Spurð hvort þetta væri ekki fullmikið af því góða voru þau alveg sammála um að svo væri ekki. "Nei, nei, þetta er bara æfingamót fyrir okkur og við tökum þetta bara eins og æfingu," sögðu þau bæði en þau hafa tryggt sér rétt til keppni á Ólympíuleikunum í ágúst og æfa því mikið þessa dagana.

"Ég fer til Króatíu á þriðjudaginn og keppi þar í móti um næstu helgi. Kem síðan heim og held áfram að æfa af kappi fyrir Aþenu," sagði Ragnheiður.

"Ég verð hérna heima og æfi meira," sagði Hjörtur Már og spurður hvað það þýddi að æfa meira sagðist hann æfa níu til tíu sinnum í viku hverri og á því yrði engin breyting.

"Við æfum alveg af kappi fram í byrjun ágúst, þá verðum við að róa okkur aðeins til að vera upp á okkar besta þegar kemur að Ólympíuleikunum," sagði Ragnheiður og Hjörtur Már bætti við: "Annars er það dálítið mismunandi eftir því hvernig menn hafa æft, en ætli maður fari ekki að taka það rólega svona um mánaðamótin."

Það er ekki hægt annað en dást að sundfólki okkar fyrir þá elju og vinnusemi sem það leggur á sig við æfingar og keppni. Það hlýtur að vera erfitt að keppa í útilaug á Íslandi, sérstaklega þegar menn keppa í mörgum greinum og kólna niður á milli. Hjörtur Már og Ragnheiður tóku undir þessar hugleiðingar. "Manni verður ansi kalt og stundum dofnar maður upp í höndunum. En það verður að reyna að vera á hreyfingu allan tímann og halda á sér hita," sagði Hjörtur Már, og þegar þau voru spurð hvort það væri ekki bara best að fara í gufuna og halda sér þannig heitum stóð ekki á svarinu: "Neeei, ætli það yrði nú ekki helst til mikil afslöppun svona áður en maður fer að keppa," sagði Ragnheiður.