MAGNEA Guðlaugsdóttir skoraði mark fyrir ÍA gegn Fylki eftir aðeins 5 sekúndna leik þegar liðin mættust í 1. deild kvenna í knattspyrnu á Akranesvelli síðasta fimmtudagskvöld. Magnea skaut frá miðju, strax eftir upphafsspyrnu leiksins, og skoraði.

MAGNEA Guðlaugsdóttir skoraði mark fyrir ÍA gegn Fylki eftir aðeins 5 sekúndna leik þegar liðin mættust í 1. deild kvenna í knattspyrnu á Akranesvelli síðasta fimmtudagskvöld. Magnea skaut frá miðju, strax eftir upphafsspyrnu leiksins, og skoraði. Samkvæmt vef ÍA liðu aðeins 5 sekúndur frá því flautað var til leiks og þar til boltinn lá í marki Fylkis. Sé það rétt, er líklega um Íslandsmet að ræða.

Fyrir þremur árum var mark skorað eftir 6 sekúndur hér á landi, Hilmar Þór Hákonarson úr Skallagrími skoraði það gegn Haukum í bikarkeppni KSÍ. Njörður Steinarsson lék sama leik sumarið 2002 þegar hann skoraði eftir 6 sekúndur fyrir Árborg gegn KFS í 3. deild.

Skagastúlkur unnu leikinn 8:0 og eru með fullt hús stiga í B-riðli 1. deildar. Þær taka nú þátt í Íslandsmótinu á ný eftir þriggja ára fjarveru og hafa sett stefnuna á sæti í úrvalsdeildinni.