JACQUES Santini, fráfarandi landsliðsþjálfari Frakka í knattspyrnu, staðfesti í gær að leikmönnum Arsenal og franska landsliðsins, Thierry Henry og Robert Pires, hefði lent saman í Portúgal.

JACQUES Santini, fráfarandi landsliðsþjálfari Frakka í knattspyrnu, staðfesti í gær að leikmönnum Arsenal og franska landsliðsins, Thierry Henry og Robert Pires, hefði lent saman í Portúgal. Atvikið átti sér stað á æfingu fyrir fyrsta leikinn, milli Englendinga og Frakka.

"Það er rétt, það voru tveir samherjar úr félagsliði sem áttu í hlut. Það var talsverður hiti í mönnum á mörgum æfingum hjá okkur í Portúgal," sagði Santini við frönsku sjónvarpsstöðina TF1 í gær. Hann sagði enn fremur að þjálfaralið Frakklands hefði haft nóg að gera við að halda umræddum leikmönnum í skefjum á næstu æfingum á eftir. "Kannski hefur það dregið úr ákefð liðsins í leikjunum," sagði þjálfarinn.

Áður höfðu verið sögur í gangi um að leikmenn Arsenal, þeir Henry, Pires og Patrick Vieira, hefðu verið ósáttir við Zinedine Zidane, en þær voru bornar til baka.

Santini tók enn fremur undir þau ummæli Davids Beckhams að leikmenn Real Madrid hefðu ekki verið í nægilega góðri æfingu á EM. "Zidane ætlaði sér um of, hann var svo ákafur í að ná góðum árangri í keppninni. Miðað við aðstæður spilaði hans eins vel og nokkur möguleiki var á," sagði Santini, sem nú er á leið til Englands þar sem hann tekur við liði Tottenham Hotspur.