Michel Fourniret
Michel Fourniret
RANNSÓKNARLÖGREGLA í Belgíu og Frakklandi vonast til að játningar Frakkans Michels Fourniret, sem hefur verið í haldi í Belgíu frá því í fyrra eftir misheppnað brottnám 13 ára stúlku, verði til þess að fleiri mannshvörf upplýsist.

RANNSÓKNARLÖGREGLA í Belgíu og Frakklandi vonast til að játningar Frakkans Michels Fourniret, sem hefur verið í haldi í Belgíu frá því í fyrra eftir misheppnað brottnám 13 ára stúlku, verði til þess að fleiri mannshvörf upplýsist.

Fourniret, sem er 62 ára og hefur búið í Belgíu síðustu ár, hefur frá því í síðustu viku játað á sig alls níu morð - á átta stúlkum og einum karlmanni - sem framin voru á tímabilinu 1987 til 2001. Á laugardag vísaði hann rannsakendum á hvar lík tveggja stúlkna, sem saknað hafði verið í Frakklandi frá því árið 1989, voru grafin, í garði við norður-franskt sveitasetur þar sem hann bjó áður.

Fourniret er nú kallaður "franski Dutroux" í belgískum fjölmiðlum, eftir belgíska barnaníðingnum Marc Dutroux sem var dæmdur í lífstíðarfangelsi fyrir sína níðingsglæpi gegn ungum stúlkum fyrir skemmstu.

Eiginkona Fournirets, Monique, er einnig í gæzluvarðhaldi, sökuð um þátt í mannránum, en hún sakar mann sinn um að hafa að minnsta kosti 10 morð á samvizkunni.

Saksóknari sem unnið hefur að málinu sagði í gær að vísbendingar væru um að Fourniret hefði framið fleiri glæpi.

Í dönskum fjölmiðlum var greint frá því í gær að danska lögreglan væri að kanna hvort verið gæti að það hefði verið Fourniret sem nauðgaði og reyndi að drepa 11 ára danska stúlku árið 1999.

Namur, Kaupmannahöfn. AFP.