ÓEINKENNISKLÆDDU lögreglumennirnir sem gerðu rækilega húsleit í höfuðstöðvum rússneska olíurisans Yukos á laugardag voru að leita að sönnunargögnum fyrir skattsvikum eins af dótturfélögum Yukos, Samaraneftegaz, að því er talsmaður fyrirtækisins sagði í...

ÓEINKENNISKLÆDDU lögreglumennirnir sem gerðu rækilega húsleit í höfuðstöðvum rússneska olíurisans Yukos á laugardag voru að leita að sönnunargögnum fyrir skattsvikum eins af dótturfélögum Yukos, Samaraneftegaz, að því er talsmaður fyrirtækisins sagði í gær. Um 100 manna sveit lögreglumanna ruddust til inngöngu í skrifstofur Yukos í Moskvu á laugardag og eyddu þar nokkrum tímum í leit í skjalaskápum, tölvum og gagnasöfnum.

Hald var lagt á hörðu diskana úr tölvum stjórnenda fyrirtækisins, að því er Alexander Shadrin, talsmaður Yukos, tjáði blaðamönnum fyrir utan bygginguna í gær. Óeirðalögregla hafði lokað bygginguna af meðan á húsleitinni stóð. Samaraneftegaz er þriðja stærsta dótturfyrirtæki Yukos.

Húsleitin var gerð daginn eftir að dómstóll í Moskvu úrskurðaði að eignir Yukos skyldu áfram vera frystar, en það gerir fyrirtækinu ókleift að selja eignir til að greiða skattaskuldir sem það hefur verið dæmt til að greiða af skattyfirvöldum. Fái fyrirtækið ekki heimild til að selja eignir blasir ekkert nema gjaldþrot við og að ríkið yfirtaki reksturinn, sem sumir halda fram að sé tilgangurinn með aðgerðunum gegn fyrirtækinu, en það er að miklum hluta í eigu fáeinna auðkýfinga, þar á meðal Mikhaíls Khodorkovskís sem situr í gæzluvarðhaldi.

Moskvu. AP, AFP.