Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra klippir á borðann við formlega opnun gestastofunnar. Henni til aðstoðar eru Davíð Egilson, forstöðumaður Umhverfisstofnunar, t.v. og Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður t.h.
Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra klippir á borðann við formlega opnun gestastofunnar. Henni til aðstoðar eru Davíð Egilson, forstöðumaður Umhverfisstofnunar, t.v. og Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður t.h. — Morgunblaðið/Guðrún G. Bergmann
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hellnar | Ný og glæsileg gestastofa Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls var opnuð á Hellnum í gær. Er þetta fyrsta gestastofa þjóðgarðsins sem stofnaður var árið 2001.

Hellnar | Ný og glæsileg gestastofa Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls var opnuð á Hellnum í gær. Er þetta fyrsta gestastofa þjóðgarðsins sem stofnaður var árið 2001. Guðbjörg Gunnarsdóttir þjóðgarðsvörður sagði að gestastofa ætti að hafa það hlutverk að þjóna gestum sem í hann koma en sjálf upplifunin í náttúrunni væri þó aðalaðdráttarafl Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls sem og annarra þjóðgarða.

Davíð Egilson, forstöðumaður Umhverfisstofnunar, þakkaði í ávarpi sínu fyrir framlag umhverfisráðuneytisins til verkefnisins en taldi að tryggja þyrfti traustari tekjustofn til þjóðgarða til að vernda mætti sjálfbærni þeirra og Íslands sem ferðamannalands. Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra klippti á borðann og opnaði gestastofuna formlega.

Gestastofan var opnuð með sérstakri sýningu sem þau Margrét Valdimarsdóttir aðstoðarþjóðgarðsvörður og Björn G. Björnsson leikmyndahönnuður höfðu unnið að frá í vetur. Auk Björns sáu þeir feðgar Sigurður Guðmundsson og Trausti Sigurðsson um uppsetningu sýningarinnar en þema hennar er landið og hafið.

Undir landinu er fjallað um jarðfræði þjóðgarðsins, dýralíf, fugla, gróðurfar og fjöruna, en undir hafið falla allar verstöðvaminjarnar. Þar er fólk sett í spor vermanna fyrri alda sem komu á Snæfellsnes til að róa á vorvertíðum. Með sýningunni er saga þjóðgarðsins sögð og gerð tilraun til að höfða til allra aldurshópa. Í barnahorninu er að finna ýmislegt gagnvirkt sem gefur yngri gestum kost á að upplifa töfra þjóðgarðsins á fræðandi máta.Mikið af glæsilegu myndefni er að finna í gestastofunni enda var leitað í smiðju færustu náttúruljósmyndara landsins. Meðal annars er þar stærsta mynd sem prentuð hefur verið af Snæfellsjökli. Er hún þrír metrar á hæð og níu metrar á breidd og var prentuð í Berlín.

Veitingar við opnun gestastofunnar voru á þjóðlegu nótunum. Borðin svignuðu undan saltkjöti, flatkökum, pönnukökum, kleinum, mysu, jurtaseyði, hákarli, harðfiski, selspiki og fleira góðgæti sem minnti á fyrri tíma. Gestastofan verður opin daglega kl. 9-17 yfir sumartímann. Þar er hægt að fræðast um svæðið, spjalla við landverði, kaupa kort af þjóðgarðinum og margt fleira.