Borgarnes | Því fer fjarri að staða kynjanna sé jöfn meðal starfsfólks Borgarbyggðar. Kemur það fram í niðurstöðum könnunar sem félagsmálanefnd Borgarbyggðar óskaði eftir að gerð yrði.

Borgarnes | Því fer fjarri að staða kynjanna sé jöfn meðal starfsfólks Borgarbyggðar. Kemur það fram í niðurstöðum könnunar sem félagsmálanefnd Borgarbyggðar óskaði eftir að gerð yrði. Í jafnréttisáætlun sveitarfélagsins segir að við ákvörðun launa og fríðinda skuli staða kynjanna vera jöfn.

Hjördís Hjartardóttir félagsmálastjóri vann könnunina. Farin var sú aðferð að skoða laun fastra starfsmanna Borgarbyggðar sem fengu greidd laun 1. desember 2003, óháð starfshlutfalli. Þá var bæjarstjóri ekki tekinn með í könnuninni.

Mikill kvennavinnustaður

Borgarbyggð er að mestu leyti kvennavinnustaður og ekki margar deildir eða stofnanir þar sem bæði vinna karlar og konur. Hreinir kvennavinnustaðir eru hjá sveitarfélaginu, en enginn hreinn karlavinnustaður. Þá er nokkuð um að starfsfólk sé hálfgerðir einyrkjar, þ.e. vinni eitt. Til að komast hjá að bera saman einstaklinga voru búnir til flokkarnir "umsjón með stærri verkefnum" og "umsjón með minni verkefnum".

Könnunin náði til samtals 139 manna. Af þeim voru 113 konur og 26 karlar (þar af einn tvítalinn í 2x½ starf). Af körlunum er 21 í fullu starfi en 5 í hlutastarfi, en af konunum eru í fullu starfi og 48 í hlutastarfi. Kynin eru að meðaltali næsta jafngömul, karlarnir 44 ára og konurnar 43 ára. Dagvinnulaun eru meginuppistaðan í launum. Meðaldagvinnulaun kvenna, miðað við fullt starf, eru 152.220 kr. en meðaldagvinnulaun karla eru 186.034 kr. Munar þarna liðlega 33.800 kr. á mánuði.

Meðaldagvinnulaun kvenna eru tæplega 82% af meðaldagvinnulaunum karla. Munurinn eykst ef föst yfirvinna er tekin með, en karlarnir eru með hærri fasta yfirvinnu en konurnar.

Munur í grunnskólanum

Eina stofnunin þar sem hægt er að tala um að bæði kynin vinni er grunnskólinn. Þar er talsverður munur á kjörum karla og kvenna. Meðaldagvinnulaun karla eru 209.343 kr. en kvenna 176.731 eða 84,4% af meðaldagvinnulaunum karla.

Þegar tekið er mið af þeim hluta starfsmanna sem fær greitt samkvæmt samningum kennara eru meðaldagvinnulaun karla 235.379 kr. en kvenna 196.411 eða 83,4%. Karlkennarar eru með að meðaltali 5,83 tíma í fasta yfirvinnu á stöðugildi, en konur 4,32 klst. á stöðugildi.

Karlar í öðrum störfum í grunnskólanum eru með 139.912 kr. að meðaltali í dagvinnulaun, en konur 133.153 eða 95,2% af dagvinnulaunum karlanna. Þarna munar verulega í fastri yfirvinnu þar sem karlarnir eru með 15,4 klst. að meðaltali á stöðugildi, en konurnar 1,5 klst. að meðaltali á stöðugildi.

Hæstu meðaldagvinnulaun hjá Borgarbyggð hafa kvenkyns sviðsstjórar, 302.985 kr., en karlkyns sviðsstjórar hafa 251.431 eða 83% af meðaldagvinnulaunum kvennanna. En þegar litið er til hlunninda kemur í ljós að karlarnir hafa 60 tíma fasta yfirvinnu á mánuði en konurnar hafa 35 klst. Auk þess hafa þeir hærri bílastyrk að meðaltali fyrir utan að annar hefur bílahlunnindi og dagpeninga. Þessi hópur, starfsmenn bæjarskrifstofu og einyrkjar, nýtur mestra hlunninda. Þarna eru 3 karlar með 60 klst. fasta yfirvinnu og tveir þeirra með hæsta bílastyrk og bíl að auki. Ein kona og einn karl hafa 40 klst. fasta yfirvinnu og fær karlinn að auki greidda unna yfirvinnu, tvær konur og einn karl með 35 klst. fasta yfirvinnu miðað við fullt starf.

Sumir fengu eingreiðslur

Þá hefur hluti starfsmanna á bæjarskrifstofum, eða 2 karlar og 5 konur, fengið svokallaðar eingreiðslur. Karlarnir eru báðir fyrir með 60 klst. fasta yfirvinnu á mánuði, 1 kona með 40 klst fasta yfirvinnu og 1 með 35 klst. en 3 án fastrar yfirvinnu.

Helga Halldórsdóttir, forseti bæjarstjórnar Borgarbyggðar, sagði að að sjálfsögðu yrði farið yfir þetta mál og brugðist við ef ástæða þætti til. Nú væri hinsvegar að ganga í garð sumarfrí á skrifstofu og hjá bæjarfulltrúum þannig að þetta yrði skoðað nánar í haust að fríum loknum.