Grikkir fögnuðu gríðarlega þegar þeir tryggðu sér Evrópumeistaratitilinn í gærkvöld. Hér hefja þeir bikarinn góða á loft.
Grikkir fögnuðu gríðarlega þegar þeir tryggðu sér Evrópumeistaratitilinn í gærkvöld. Hér hefja þeir bikarinn góða á loft. — AP
"ÞETTA er stærsta stundin á mínum ferli. Ég fann á mér að það væri ekki nokkur möguleiki á því að við myndum missa af bikarnum.

"ÞETTA er stærsta stundin á mínum ferli. Ég fann á mér að það væri ekki nokkur möguleiki á því að við myndum missa af bikarnum. Þá vissi ég ekki hvernig við færum að þessu, en ég vissi að við myndum lyfta Evrópubikarnum," sagði Angelos Charisteas, sóknarmaður Grikkja, sem tryggði þeim óvæntan sigur í Evrópukeppninni í gærkvöld. Hann skoraði sigurmarkið, 1:0, gegn Portúgölum á Luz-leikvanginum í Lissabon, en Grikkir voru fyrirfram taldir eitt veikasta liðið sem náði að komast í úrslitakeppnina. Sigur þeirra er líklega sá óvæntasti í knattspyrnusögunni.

Charisteas sagði að úrslitin sýndu að Grikkland ætti besta landslið Evrópu í dag. "Við erum Evrópumeistarar, við erum bestir í Evrópu. Ég er yfir mig ánægður og skora á alla Grikki að fagna og gleðjast. Það er allsendis óvíst að við eigum nokkurn tíma eftir að upplifa annað eins á ný.

Við náðum svona langt með því að leggja stórlið að velli, og mættum firnasterku liði Portúgala í kvöld. En samt unnum við titilinn," sagði Charisteas, sem er 24 ára sóknarmaður og leikur með Werder Bremen í Þýskalandi. Hann hefur heldur betur slegið í gegn í Portúgal en mark hans í jafnteflisleiknum gegn Spánverjum, 1:1, vó afar þungt í riðlakeppninni, og hann skoraði síðan sigurmarkið gegn Frökkum, 1:0, í átta liða úrslitunum.

Nýtt fyrir gríska knattspyrnu

"Grikkland skráði nafn sitt á spjöld knattspyrnusögunnar í dag. Þetta er alveg nýtt fyrir gríska knattspyrnu, og nýtt í evrópskri knattspyrnu og lið okkar lék frábærlega. Við nýttum okkar tækifæri. Mótherjarnir voru leiknari með boltann, en við vorum skynsamir og hefðum átt að vinna 2:0," sagði Otto Rehhagel, Ottó kóngur, eins og Grikkir kalla hann eftir ótrúlega frammistöðu liðsins í keppninni í Portúgal.

Eins og við var að búast, brutust út gífurleg fagnaðarlæti um allt Grikkland þegar flautað var til leiksloka í gærkvöld. Gríska þjóðin hefur staðið á öndinni yfir óvæntum framgangi knattspyrnulandsliðsins undanfarna daga. Þulur gríska sjónvarpsins öskraði: "Þetta er staðreynd, draumurinn hefur ræst, við lyftum bikarnum, við erum í sjöunda himni. Ég skora á alla Grikki að fagna til morguns," þegar úrslitin lágu fyrir. Landar hans eru komnir í góða æfingu, eftir taumlausan fögnuð eftir hvern sigurleikinn af öðrum undanfarnar þrjár vikur.