Kunnuglegur bikar gæti Rakel Nathalía verið að hugsa er hún fylgir í fótspor stóru systur og tekur við barnaflokksbikarnum úr hendi Evu Marie Gerlach, æskulýðsfulltrúa FEIF.
Kunnuglegur bikar gæti Rakel Nathalía verið að hugsa er hún fylgir í fótspor stóru systur og tekur við barnaflokksbikarnum úr hendi Evu Marie Gerlach, æskulýðsfulltrúa FEIF. — Morgunblaðið/Vakri
Langglæsilegasta landsmóti hestamanna sem haldið hefur verið lauk um fjögurleytið í gær með góðum skeiðsprettum A-flokks gæðinga að lokinni verðlaunaafhendingu. Ásdís Haraldsdóttir og Valdimar Kristinsson áttu góða viku á Gaddstaðaflötum ásamt þúsundum hestamanna.

ÆTLA má að það sé útbreidd skoðun mótsgesta að aldrei fyrr hafi jafn vel tekist til sem nú á þeim fimmtán landsmótum sem haldin hafa verið til þessa. Þar er sama hvar drepið er niður. Mótssvæðið á Gaddstaðaflötum var orðið glæsilegasta mótssvæði landsins fyrir mótið og stóðst fyllilega raunina. Er þetta mótssvæði í algerum sérflokki og spurning hvort raddir um eitt landsmótssvæði verði háværari.

Framkvæmdin gekk mjög vel fyrir sig og nýstárleg landsmótsdagskrá gekk prýðilega upp. Aðsókn að mótinu var sú besta sem nokkru sinni hefur verið til þessa og voru forsvarsmenn mótsins bjartsýnir á að það skilaði góðum hagnaði. Ekki verður betur séð en nýir tímar séu framundan í mótahaldi.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson, formaður stjórnar Landsmóts ehf., var ánægður í mótslok. Hann sagðist ekki hafa lokatölur yfir fjölda þeirra sem sóttu mótið en þó væri víst að gestir voru allavega yfir 10.000. Þetta væri því í fyrsta sinn sem vitað væri með vissu að fjöldi mótsgesta hafi náð því marki.

"Gestirnir voru margir og einfaldlega frábærir. Það er ekki sjálfgefið að allt gangi upp þegar svo miklum mannfjölda er stefnt á einn stað. En ég verð að segja að gestir þessa landsmóts hafi staðið sig vel og hagað sér vel. Bæði á föstudags- og laugardagskvöld var mannhaf hér á svæðinu til að skemmta sér og gekk allt ótrúlega vel. Við áttum fund saman í gær, stjórn mótsins, lögregla og læknar og eru allir á einu máli um að vel hafi tekist til. Hér hefur verið valinn maður í hverju rúmi og allt starfsfólk staðið sig með prýði. Svona mót verður ekki haldið nema fólk vilji vinna og það var reyndin. Undirbúningur var mikill fyrir mótið og við nutum reynslunnar frá síðasta móti. Við munum einnig nýta reynslu okkar hér fyrir næsta mót," sagði Sveinbjörn.

Hann segir að eftir stutt hlé verði undirbúningur fyrir næsta landsmót hafinn að fullu. "Okkur var falið að semja við Skagfirðinga um næsta mót, en þeim samningum er ekki enn lokið. Við verðum að setja kraft í undirbúninginn."

Að helga einum degi kynbótahrossum lukkaðist vel og tilraunin í lok dagsins tókst prýðilega þannig að ætla má að áfram verði haldið á þeirri braut.

Ágúst Sigurðsson hrossaræktarráðunautur sagði að kynbótadómar og sýningar hafi gengið mjög vel fyrir sig. Að þessu sinni var bryddað upp á ýmsum nýjungum og var til dæmis stutt atriði á laugardag þar sem annars vegar voru sýnd hross sem höfðu fengið 9 eða hærra fyrir tölt eða hægt tölt og hins vegar hross sem höfðu fengið 9 eða hærra fyrir skeið.

"Þetta var stutt og skemmtileg sýning sem féll vel í kramið hjá mótsgestum," sagði Ágúst. "Þarna sáu áhorfendur að það er enginn galdur á bak við þessi góðu hross því þau voru á venjulegum skeifum samkvæmt reglum í kynbótasýningum. Sú regla sem tekin hefur verið upp á kynbótasýningum í vor að skoða ástand hrossa eftir sýningu reyndist vel og munum við halda áfram að þróa þetta. Fyrst og fremst var hún hugsuð sem könnun, en virðist virka einnig sem aðhald. Annars finnst mér reiðmennskan á þessu móti vera til mikillar fyrirmyndar. Svo virðist sem allir hafi verið samtaka um að láta allt ganga upp."

Landsmótsgestir nutu vandaðrar dagskrár frá mánudegi til sunnudags, en á laugardag og sunnudag var boðið upp á úrval kynbótahrossa og úrslit í keppnisgreinunum. Þótt margir hafi drifið sig af stað strax að móti loknu var áberandi hversu fólk var rólegt, enda enn opið á veitingastöðum og hægt að skoða og versla í markaðstjaldinu. Til marks um góða þjónustu kom fram nokkuð skondin tilkynning frá lögreglu vegna þess hversu margir höfðu komið sjálfviljugir til að fá að blása í blöðru og kanna hvort of mikið áfengismagn væri í blóði. Lögreglan vildi nefnilega endilega koma því á framfæri að öruggara væri að koma fótgangandi, því þeir sem kæmu akandi og mældust með of mikið áfengismagn misstu umsvifalaust ökuréttindin.

Vel var staðið að framkvæmd mótsins og komu margir þar við sögu. Til dæmis sá Handknattleiksdeild Selfoss um þá miklu vinnu sem fór í að hreinsa svæðið eftir hvern dag. Komið var upp gámastöð þar sem sorpið var meira að segja flokkað. Gestum var tíðrætt um skemmtilega tónlist sem Gunnar Þórðarson hafði valið og leikin var undir í sýningum og keppni.