Sigurgleðin leynir sér ekki hjá Valdimar Bergstað þegar hann hefur hinn veglega unglingabikar á loft á fullri ferð á Kólfi frá Stangarholti.
Sigurgleðin leynir sér ekki hjá Valdimar Bergstað þegar hann hefur hinn veglega unglingabikar á loft á fullri ferð á Kólfi frá Stangarholti. — Morgunblaðið/Vakri
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Keppni í öllum flokkum gæðingakeppni landsmótsins átti það sammerkt að alls staðar unnust öruggir og sannfærandi sigrar auk þess sem skoðanir hinna svokölluðu brekkudómara virtust fara í megindráttum saman við skoðanir hinna eiginlegu dómara mótsins.

Keppni í öllum flokkum gæðingakeppni landsmótsins átti það sammerkt að alls staðar unnust öruggir og sannfærandi sigrar auk þess sem skoðanir hinna svokölluðu brekkudómara virtust fara í megindráttum saman við skoðanir hinna eiginlegu dómara mótsins.

Aukaspenna í A-flokki

Sigurvegari í A-flokki gæðinga fór af miklu öryggi í gegnum keppnina, var efstur eftir bæði forkeppni og milliriðil og fær svo fyrsta sæti á línuna í úrslitum. Ágætum þulum gæðingakeppninnar tókst reyndar að hleypa nokkurri aukaspennu í keppnina þegar þeir sögðu að Þytur frá Kálfhóli og Sigríður Pjetursdóttir væru efst að loknu tölti og brokki og þegar svo skeiðið tókst með miklum ágætum hjá Þyti og Sigríði virtist allt galopið en raun var víst sú að Geisli frá Sælukoti og knapi hans Steingrímur Sigurðsson voru efstir á þessum tímapunkti. Þrátt fyrir örugga sigra bauð keppnin upp á rafmagnaða spennu þar sem stórbrotnir gæðingar og snjallir knapar í öllum flokkum háðu harða keppni.

Skeifur fuku í B-flokksúrslitum

Rökkvi frá Hárlaugsstöðum virtist á öllum stigum gæðingakeppninnar hinn öruggi sigurvegari og þótt áhorfendur létu óspart í sér heyra þegar góð tilþrif sáust var greinilegt að Rökkvi naut mestrar hylli brekkunnar keppnina út í gegn. En illa hefði getað farið fyrir Rökkva og sér í lagi Þorvaldi Árna Þorvaldssyni því undir lok keppninnar missti Rökkvi eina skeifuna undan þegar Þorvaldur var að hægja hann niður af yfirferðartöltinu. Er aldrei að vita hvernig hefði farið ef þetta hefði gerst fyrr. Grunur frá Oddhóli sem Sigurbjörn Bárðarson sat missti einnig undan sér á svipuðu augnabliki og var því járnað í snarheitum inni á vellinum meðan beðið var eftir niðurstöðum dómaranna svo hægt væri að ríða klárunum að lokinni verðlaunafhendingu.

Otur guðfaðir B-flokksins

Rökkvi er sem kunnugt er undan Otri frá Sauðárkróki og eru það nokkur tíðindi því hann er þriðji sonur hans sem sigrar í B-flokki á landsmóti. Áður hafa sigrað Orri frá Þúfu 1994 og á síðasta móti 2002 sigraði Kjarkur frá Egilsstaðabæ. Þá má einnig geta þess að Markús frá Langholtsparti sem sigraði 2000 í Reykjavík er sonarsonur Oturs og sonur Orra.

Faðir Geisla, Gustur frá Grund, hefur hinsvegar átt afkvæmi í þessu eftirsótta sæti en það kom aftur á móti glöggt í ljós á þessu móti að hann er mikill gæðingafaðir því auk Geisla var annar sonur Gusts, Kolskeggur frá Oddhóli, einnig í úrslitum A-flokks. Þá má einnig geta þess að tveir hestar frá Litladal voru í úrslitum A-flokks, þeir Óskar og Skuggabaldur.

Í fótspor stóru systur

Í yngri flokkum var sama siguröryggið á ferðinni. Rakel Nathalía Kristinsdóttir reið Vígari frá Skarði af miklu öryggi í efsta sætið eftir að hafa verið efst í bæði forkeppni og milliriðli. Bikarinn sem Rakel fékk hefur verið undanfarin tvö ár í hillu heima hjá henni því systir hennar Hekla Katarína vann í barnaflokki á síðasta landsmóti og verður bikarinn því enn um sinn á hillunni í Árbæjarhjáleigu.

Hestakostur barnanna var einstaklega góður og vakti það til að mynda undrun og aðdáun fjölmargra útlendinga á mótinu að sjá hestakost og reiðmennsku barna og sagði sænsk blaðakona að þessir krakkar gætu hæglega staðið í hinum fullorðnu á sterkum mótum í Svíþjóð.

Í unglingaflokki var það Valdimar Bergstað sem sigraði á Kólfi frá Stangarholti en hann fór örlitla Krýsuvíkurleið að sigrinum því í milliriðlinum féll hann niður í fjórða sætið eftir að hafa verið efstur eftir forkeppnina. Var það yfirferðin sem gerði gæfumuninn hjá Valdimar og Kólfi enda sá grái undan Kolfinni frá Kjarnholtum og því enginn ættleri hvað rýmið varðar.

Svo var það Heiðrún Ósk Eymundsdóttir sem var öryggið uppmálað í úrslitum ungmenna á Golu frá Ysta-Gerði og sigruðu af sama öryggi og hin tvö. Hún fékk fleiri verðlaun því Félag tamningamanna veitti henni reiðmennskuverðlaun sem ávallt eru veitt ungum og efnilegum knöpum sem þykja sýna fágaða og snjalla reiðmennsku og var Heiðrún afar vel að þeim komin.

Töltkeppni mótsins stóð vel undir merkjum sem eitt af bestu skemmtiatriðum mótsins og þar var í aðalhlutverkum Lydía frá Vatnsleysu og Björn Friðrik Jónsson bóndi þar á bæ. Tæplega var hægt að tala um spennandi keppni því þau höfðu mikla yfirburði í forkeppninni en þó tókst Antoni Páli Níelssyni að setja smáfiðring í þetta á hægatöltinu þar sem hann og Þerna frá Hólum voru efst. Eftir hraðabreytingar var hinsvegar ljóst að þetta væri léttur leikur hjá Birni og Lydíu því yfirferðin var þeirra sterkasta hlið og þau komin í efsta sætið og þar tóku dómarar mikið gleðihopp. Þeir sem hæst fóru gáfu þeim 9,8 og er það spurning hvort þetta sé hæsta einkunn sem gefin hefur verið frá að skalinn 0 til 10 var tekinn upp í töltkeppni. En Björn uppskar ríkulega því hann hlaut heilar 250 þúsund krónur í lausafé og fjóra farmiða á næsta heimsmeistaramót sem haldið verður í Svíþjóð að ári liðnu. Það var Icelandair sem gaf þessi veglegu verðlaun. Má því segja að Björn hafi verið á nokkuð góðu tímakaupi á laugardagskvöldið.