Brezk/amerísk söngleikjalög. Söngkvartettinn Opus (Valgerður Guðnadóttir S, Rósalind Gísladóttir A, Einar Örn Einarsson T og Gunnar Kristmannsson Bar.). Píanóundirleikur: Vignir Þór Stefánsson. Föstudaginn 2. júlí kl. 21.

GLÆNÝR söngkvartett kvaddi sér hljóðs á Hótel Borg á föstudagskvöld við ágæta aðsókn og eldheitar undirtektir. Endurgerður funkís-danssalurinn myndaði umgjörð í stíl við lagavalið, sem var að mestu frá kreppuárunum, þó að heyrð hans væri ekki söngvæn. Verra var þó undirleikshljóðfærið, því leiðinda knæputónn kom úr uppréttu Hyundai-píanói hótelsins, er var aukinheldur illa stillt. Bætti gráu ofan á svart hvað undirleikur Vignis Þórs Stefánssonar var framan af ferkantaður og sterkur, þó að það lagaðist töluvert eftir hlé.

Blandaði söngkvartettinn er býsna kröfuhart form. Ekki sízt í svokölluðu "léttu" og sveifluþrungnu lagavali sem bitur reynsla hefur sýnt að sé allt annað en létt þegar á hólminn kemur og allt þarf að hljóma klukkusamtaka og fyrirhafnarlaust. Það verður því að segjast, að miðað við þau 2-3 ár, sem oftast þarf til að ná viðunandi saman, gekk kraftaverki næst hvað nýstofnaður Opus-kvartettinn náði að afreka þetta kvöld.

Enn merkilegra var hvað óperuskóluðum söngvara eins og Valgerði Guðnadóttur tókst oft að tempra raddbeitingu sína við þarfir hóps og viðfangsefna með sléttum brjósttónum, og betur en iðulega hefur heyrzt frá þeirri stétt við svipaðar aðstæður. Þétt altrödd Rósalindar Gísladóttur féll og dável að samhljómi. Karlaraddirnar voru hins vegar ívið of veikar; sumpart kannski vegna vonds hljómburðar. Og þó að framkoma hópsins væri smitandi glaðvær og afslöppuð, var kynningarhliðin í hálfgerðu skötulíki; hafði greinilega mætt afgangi að svo stöddu, hvað sem seinna kann að verða.

18 laga prógrammið var geysifjölbreytt og mætti á stórstikli nefna Memory úr "Cats" í meðförum Valgerðar (þó lægi ívið of lágt), Indian Love Call dúett Gunnars og Rósalindar, gospelinn Soon Ah Will Be Done (eina a cappella kórinn, og mættu vera fleiri), hið frábærlega vel heppnaða Ain't Misbehavin' Wallers er "swingaði" upp á kraft, I Don't Know How To Love Him með Rósalind sem Magdalenu úr Kristssöngleik Webbers, Tonight dúett Einars og Valgerðar úr West Side Story og hið furðulipra I've Got Rhythm Gershwins.

Ríkarður Ö. Pálsson