Snjólaug María Dagsdóttir: Sjávarfang skreytir borðin.
Snjólaug María Dagsdóttir: Sjávarfang skreytir borðin. — Morgunblaðið/Ásdís Haraldsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á safnasvæðinu Görðum á Akranesi er notalegt kaffihús, Maríukaffi. Þrátt fyrir að Akranes sé fimm þúsund manna bær, er Maríukaffi eina kaffihúsið sem þar er rekið um þessar mundir.

Á safnasvæðinu Görðum á Akranesi er notalegt kaffihús, Maríukaffi. Þrátt fyrir að Akranes sé fimm þúsund manna bær, er Maríukaffi eina kaffihúsið sem þar er rekið um þessar mundir. Kaffihúsið er reyndar ekki alveg við þjóðveg 1, en þangað er ekki langur krókur fyrir þá sem fara um Hvalfjarðargöngin eða eru staddir á Vesturlandi.

Skreytt með þangi og þara

Sérstakar skreytingar vekja strax athygli þegar inn er komið, þó aðallega borðin í salnum. Undir glerplötu er sandur og margvíslegar skreytingar búnar til úr þara og skeljum eða þurrkuðum laufblöðum. Flest innanstokks minnir á sjóinn. Gamlar glernetakúlur hanga í gluggunum og á gólfinu stendur hlaðborð með skreytingum úr steinum, þara og þangi. Flestar eru skreytingarnar handbragð Snjólaugar Maríu Dagsdóttur sem hefur rekið Maríukaffi frá því það opnaði árið 2001. Á veggjum hanga málshættir í römmum, en þeir eru hugmynd dóttur hennar, auk þess sem málsháttur fylgja hverjum kaffibolla. Þrátt fyrir að mikið sé nostrað við umhverfið og andrúmsloftið er aðaláherslan lögð á persónulega þjónustu og heimabakaðar kökur, tertur og bökur og gott kaffi.

Uppáhaldskökur laða að

"Vinsældir kaffihússins hafa aukist jafnt og þétt þrátt fyrir að Akurnesingar séu ekki sérlega mikið kaffihúsafólk," segir Snjólaug María. "Ástæðan er sú að fólk gerir sér í auknum mæli sérstaka ferð úr Reykjavík til að fá sér kaffi og kökur hér. Oft á það sér einhverja uppáhaldsköku. Margir koma líka til að skoða steinasafnið sem maðurinn minn, Þorsteinn Þorleifsson, rekur en það er orðið þekkt víða." Maríukaffi er til húsa í Safnaskálanum í Görðum, en auk þess og Steinasafnsins eru þar Íþróttasafn, Sýning Landmælinga Íslands og Hvalfjarðargangasafn.

Snjólaug María hafði lokað á virkum dögum í vetur en tók engu að síður á móti hópum í léttan málsverð eða kaffi allt eftir óskum. Hún fær veisluþjónustuna Fortuna á Akranesi til að sjá um matinn ef um stórar veislur er að ræða. Salurinn tekur 60 manns í sæti og einnig er hægt að panta hann til veislu- og fundahalda, fyrirlestra og námskeiðahalds.

Kakan sem við fáum uppskrift að í lokin er víst þvílíkt gómsæt að braglaukarnir mala af sælu í heila viku eftir að bragðað er á henni.

Perubomba

1 svampbotn

1 marengsbotn

1 dós perur

1 peli rjómi

Súkkulaðikrem:

3 eggjarauður

4 msk. flórsykur

100 g suðusúkkulaði

1 peli rjómi

Eggjarauður og flórsykur þeytt vel. Bræddu súkkulaði bætt í og þeytt á meðan. Rjóminn þeyttur og blandað í smá skömmtum í súkkulaðihræruna. Gott er að kæla kremið í ísskáp þar til það þykknar aðeins.

Karamellubráð:

25-30 töggur-karamellur

1 dl rjómi

1 tsk. smjör

Bræðið allt saman í potti og hrærið í á meðan. Kakan sett saman: Setjið svambotninn á disk, dreypið örlitlum perusafa á hann og hellið megninu af karamellukreminu yfir. Þeytið rjómann, brytjið perurnar niður í litla teninga, blandið saman og setjið á kökuna. Hellið restinni af karamellunni yfir perurjómann. Setjið marengsbotninn á, hellið súkkuðlaðikreminu varlega yfir og dreifið úr því svo það hjúpi kökuna.

Skreytið síðan að vild, t.d. með marengstoppum, súkkulaðiskrauti eða ávöxtum.

Maríukaffi, Safnaskálanum í Görðum, 300 Akranes Opið frá kl. 13.00-17.00 alla daga Sími: 431 5566 Netfang: museum@museum.is Veffang: www.museum.is

asdish@mbl.is