ÍSLEIFUR VE var við löndun í Vestmannaeyjum í gærkvöld, en það er eitt sex skipa sem verið hafa í loðnurannsóknum með Árna Friðrikssyni, skipi Hafrannsóknastofnunar.

ÍSLEIFUR VE var við löndun í Vestmannaeyjum í gærkvöld, en það er eitt sex skipa sem verið hafa í loðnurannsóknum með Árna Friðrikssyni, skipi Hafrannsóknastofnunar. Að sögn Helga Valdimarssonar, skipstjóra á Ísleifi VE, hafa tilraunaveiðarnar gengið vel, en hvert skip mátti tvívegis koma með fullfermi af loðnu í land. "Okkur líst vel á þetta, það þarf ekki að skrifa dánarvottorð á loðnuna," sagði Helgi í samtali við Morgunblaðið. Hann segir samstarfið við tilraunaveiðarnar hafa gengið vel, og gott að hafa þennan háttinn á.

Áætla að skila upplýsingum í dag

Hjálmar Vilhjálmsson hjá Hafrannsóknastofnun sagði í samtali við Morgunblaðið að nú væri rannsóknaskipið Árni Friðriksson statt norðaustur af Langanesi, og áætlað að það kæmi líklega til hafnar á Reyðarfirði á þriðjudag. "Við erum búnir að fara víða og höfum átt í góðu samstarfi við þá sex loðnubáta sem okkur hafa fylgt. Þegar við ljúkum rannsóknum í dag getum við sent upplýsingar til ráðuneytisins, sem tekur ákvarðanir um þessi mál. Þá mun skýrast hvenær veiðar megi hefjast, og þeir bíða eflaust ekki lengi," sagði Hjálmar í samtali við Morgunblaðið.

Hann segir tilraunaveiðarnar hafa tekist vel, og hafi skipin skilað inn loðnu þeirri sem þeir hafi veitt meðal annars til Siglufjarðar, Bolungarvíkur og Vestmannaeyja. "Þetta samstarf hefur verið mjög skemmtilegt. Þeir máttu veiða tvö fullfermi, og í þessum bransa þykir það ekki mikill afli," segir Hjálmar.

Vilhjálmur Egilsson, ráðuneytisstjóri í sjávarútvegsráðuneyti, segir taka stuttan tíma að vinna úr upplýsingum og leyfa veiðar eftir að rannsakendur hafi skilað inn niðurstöðum. "Það er ekki hangið yfir þessu eftir að niðurstaða er komin," sagði Vilhjálmur.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, segir það skipta vinnsluna miklu máli að koma verksmiðjum sínum í gang í tengslum við sumarvertíð á loðnu. "Við erum vongóðir um að af veiðum verði sem allra fyrst," segir Björgólfur.

Hann segir samstarf Hafrannsóknastofnunar og LÍÚ um að skipuleggja loðnuleit virðast hafa gengið vel. "Það er í raun framhald af góðum árangri frá í janúar. Menn geta unnið þetta saman, og þetta hefur skilað betri árangri en að hafa einungis eitt rannsóknarskip við leit. Mér finnst þetta mjög ánægjuleg samvinna," segir Björgólfur.