Hreyfing: Holl heilsubót fyrir alla.
Hreyfing: Holl heilsubót fyrir alla. — Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
ALLIR vita að hreyfing er holl og er líklega einfaldasta og ódýrasta almenn heilsubót sem völ er á.

ALLIR vita að hreyfing er holl og er líklega einfaldasta og ódýrasta almenn heilsubót sem völ er á. Vitað er að til að ná árangri til bættrar heilsu þarf ekki endilega að rembast og kófsvitna heldur er hægt að ná umtalsverðum árangri með léttri hreyfingu á hverjum degi. Hún þarf helst að ná hálftíma en skipta má henni niður í tvö eða þrjú tímabil yfir daginn án þess að áhrif glatist. Þessi hreyfing getur verið allt frá því að gera hreint heima hjá sér, slá garðinn, ganga rösklega með barnavagn og yfir í það að spila golf, tennis, handbolta, ganga á skíðum, synda rösklega o.s.frv.

Fleiri gleðifregnir berast nú úr þessari átt. Gönguferðir geta skerpt hugsun og eflt hugann. Fram hafði komið í dýratilraunum að lítilsháttar aukning á líkamsþoli ylli breytingum á efnaskiptum og taugaboðum í framhluta heila tilraunadýranna. Þetta var nýlega kannað í mönnum. Rannsakaður var hópur af fullorðnu fólki á aldrinum 60-75 ára, sem allt hafði hreyft sig fremur lítið áður. Fólkinu var skipt í tvo hópa þar sem annar hópurinn tók þátt í reglulegum gönguferðum en hinn einungis teygði sig og beygði. Eins og ráð var fyrir gert batnaði þol gönguhópsins verulega en hins ekki. Jafnframt varð marktækur bati á ýmsum mældum þáttum sem lutu að andlegri skerpu, hugsun og skynjun hjá þeim sem hreyfðu sig, en þeir sem ekki gerðu það sátu eftir óbreyttir.

Rannsókn þessi er vissulega frumrannsókn en gefur áhugaverðar niðurstöður, þótt þær þarfnist frekari staðfestingar. Enn og aftur gefa þessar niðurstöður mönnum ástæðu til reglulegrar hreyfingar. Vonandi er mönnum fátt eins kært og að geta hugsað sæmilega skýrt eins lengi og kostur er.

Sigurður Guðmunds-

son landlæknir