Svavar Guðbjartsson var fæddur á Lambavatni á Rauðasandi 8. september 1934. Hann lést á sjúkrahúsinu á Patreksfirði 15. júní síðastliðinn og var útför hans gerð frá Patreksfjarðarkirkju 26. júní.

Með þessum fáu línum viljum við kveðja vin okkar Svavar frá Lambavatni. Hann var fyrsti maðurinn sem við munum eftir úr æsku að kom heim fyrir utan Rauðasand og þá á Willys-jeppanum sínum B-41. Hann kom í heimsókn flestar helgar og oft þess á milli til að vinna. Það var sama hvað hann gerði, það virtist allt leika í höndunum á honum og hann gat leyst vandamál og gert við hluti sem aðrir töldu óframkvæmanlegt. Svavar varð fljótt átrúnaðargoð okkar bræðra og sá maður sem við vildum helst geta líkt eftir. Sú aðdáun hófst þegar hann var einn af aðalmönnunum sem unnu við nýja fjósið á Lambavatni frá 1978-79. Hann byrjaði að ýta fyrir því með jarðýtunni sinni TD 18, smíðaði allar járnainnréttingar, lagði pípulagnir o.fl. Hann sagði okkur þá margar sögur af sér og prakkarastrikum frá því að hann ólst upp og bjó á Efra-Lambavatni en þá var tvíbýli hérna.

Eitt sinn var Svavar að gera við dráttarvél heima þegar við vorum litlir og vantaði nýja pakkningu við að setja saman. Nefnir þá að það þurfi að búa til nýja úr hundaskinninu og horfum við því með söknuði á heimilishundinn. Þegar svo kemur að því að Svavar segir að næst sé það pakkningin sem vanti spyrjum við hvort hann þurfi nú endilega að taka hundinn. Þá segist hann aðeins hafa verið að stríða okkur og eigi við pakkningarefni sem hann kalli hundaskinn.

Svavar var alla tíð tilbúinn að hjálpa mönnum, alveg fram á síðustu ár eftir að heilsunni fór að hraka, og rifja ég upp eitt slíkt dæmi.

Það var eftir að ég fór að vinna á Patreksfirði að kvöld eitt í lok ágúst kemur skakari í dagakerfinu með bilaðan startara til mín og segist tapa síðustu dögunum ef báturinn komist ekki í gang. Við skoðun kemur í ljós að rafhluti startarans er í lagi en bendixinn snuðar. Þetta var gamall startari og vél sem ekkert fékkst í. Verkstjórinn á aðalverkstæði bæjarins segir að það sé ekki hægt að gera við þetta. Með sjómanninn alveg niðurbrotinn yfir raunum sínum dettur mér í hug að fara til Svavars. Hann var þá sofnaður og hálflasinn, en við að heyra af þessu vandamáli hresstist hann allur upp og vildi endilega koma og reyna við þessa bilun. Hann byrjar að fá sér í pípuna, slær henni við, sker í sundur bendixinn, rennir ný kefli, setur í og sýður saman. Þetta virkaði og sjómaðurinn lauk vertíðinni.

Svavar fór talsvert til eggja með frænda sínum Marinó heitnum og var sá áhugi hjá honum alla tíð. Fyrir aðeins tveimur árum um vor fórum við saman með Jóni Magnússyni að setja upp ljósavél í veiðihúsi hans norður við Steingrímsfjörð. Á leiðinni sáum við hvar fýllinn var orpinn í klettum rétt fyrir ofan veginn. Svo á bakaleiðinni vildi Svavar endilega að við færum að ná eggjunum sem við og gerðum. Hann hafði þá á orði að þessir Strandamenn væru nú litlir eggjamenn að sækja sér ekki í soðið þar sem næstum væri hægt að teygja sig út um gluggann af veginum.

En nú hafa leiðir okkar skilið og Svavar lagður af stað í annað og lengra ferðalag. Það eru forréttindi að hafa fengið að þekkja og starfa með Svavari og oft eigum við eftir að hugsa yfir komandi vandamálum í framtíðinni: Hvað hefði nú Svabbi gert?

Systkinum og frændfólki vottum við okkar dýpstu samúð.

Sveinn Eyjólfur og Þorsteinn Tryggvasynir, Lambavatni.