Sigrún Svanhvít Kristinsdóttir fæddist á Ytri-Nýpi í Vopnafirði 19. júlí 1924. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sundabú á Vopnafirði 22. júní síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Björg Sigríður Einarsdóttir húsmóðir, f. á Lýtingsstöðum í Vopnafirði 9. júní 1901, d. 17 apríl 1981, og Kristinn Daníelsson, f. 9. nóvember 1889 á Hofi í Vopnafirði, d. 13. október 1969. Systkini Sigrúnar eru: Guðrún, f. 7. maí 1920, Bergljót, f. 30. júní 1921, d. 31. desember 1996, Margrét, f. 2. nóvember 1922, Hallbjörn, f. 19. júlí 1927, Einar, f. 17. mars 1932, og Haukur, f. 1. september 1937, d. 26. maí 1978.

Sigrún var gift Braga Dýrfjörð, flugvallarstjóra á Vopnafirði, f. 27. janúar 1929, d. 20. mars sl. Foreldrar hans voru Þorfinna Sigfúsdóttir matráðskona, f. 3. maí 1903, d. 4. febrúar 1990, og Kristján Dýrfjörð rafvirkjameistari, f. 22. júní 1892, d. 16. ágúst 1976.

Sigrún og Bragi eignuðust tvíbura, Finn Þór og Sigurð, f. 1. mars 1952. Sigurður lést rúmlega árs gamall 27. ágúst 1953. Finnur Þór býr á Vopnafirði og er flugvallarstjóri við Vopnafjarðarflugvöll. Árið 1961 tóku Sigrún og Bragi í fóstur bróðurdóttur Sigrúnar, Kristínu, á öðru ári eftir að móðir hennar hafði slasast illa í bílslysi. Ólu þau hana upp sem sína eigin dóttur. Kristín er fædd 10. apríl 1959, en foreldrar hennar eru Guðrún M. Guðmundsdóttir, f. 17. september 1923, d. 29. mars 1995, og Hallbjörn Kristinsson, f. 19. júlí 1927, búsettur í Reykjavík. Barnsfaðir Kristínar og fyrrverandi eiginmaður er Kristinn Adolf Gústafsson málarameistari og eiga þau saman tvö börn, Braga Björn, f. 23. nóvember 1988, og Sigrúnu Svanhvíti, f. 29. mars 1991. Kristín er lærður snyrtifræðingur en starfar nú sem tryggingaráðgjafi hjá Tryggingamiðlun Íslands í Reykjavík.

Sigrún bjó tvö fyrstu árin sín á Ytri-Nýpi og eitt ár á Refsstað en þaðan flutti hún síðan með foreldrum sínum í Eyvindarstaði. Hún stundaði almenn sveitastörf bæði heima og sem kaupakona, m.a. í Möðrudal á Fjöllum og á Torfastöðum í Jökulsárhlíð. Sigrún stundaði nám við Húsmæðraskólann í Hveragerði árið 1945 en eftir það fór hún til Seyðisfjarðar í vinnu og kynntist þar eiginmanni sínum Braga og giftu þau sig þar og hófu sinn fyrsta búskap. Árið 1954 fluttust þau að Eyvindarstöðum og bjuggu þar til 1960 en þá fluttust þau í Vopnafjarðarkauptún þar sem þau bjuggu sér heimili á Helgafelli. Sigrún stundaði vinnu utan heimilis, t.d. í síldarsöltun og við afgreiðslu fyrir flugfélögin, bókanir og fraktafgreiðslu, um langt skeið. Síðustu ár ævi sinnar átti hún við nokkur veikindi að stríða og dvaldist á hjúkrunarheimilinu Sundabúð síðan í ágúst 2003.

Útför Sigrúnar fer fram frá Vopnafjarðarkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.

Í dag kveðjum við móður mína sem hefur nú fengið hvíldina. Margs er að minnast og hugurinn leitar aftur til æskuáranna þegar þú varst að kenna mér að sauma. Sú þolinmæði sem þú bjóst yfir þegar stirðir puttar og lítil elja voru til staðar hjá lítilli stúlku sem vildi frekar vera að klifra í klettum heldur en að nema hannyrðir. En allt hafðist þetta með seiglunni. Lítil mynd byrjaði að myndast í strigann og andrúmsloftið breyttist, varð dulmagnað og notalegt er við sátum saman og hlustuðum á framhaldsöguna í útvarpinu eða spennandi sakamálaleikrit á fimmtudagskvöldum. Margar góðar stundir áttum við og fjölskyldan í sumarbústaðnum mínum við Álftavatn og er mér minnisstætt þegar við vígðum bústaðinn með ykkur pabba, hvað við Kiddi kepptumst við að hafa allt tilbúið þegar þið kæmuð. En við áttum nánast eftir að kaupa allt inn deginum áður en von var á ykkur. Vorum við búin að leita eftir ódýru sófasetti út um allt en fundum ekkert. En rákumst svo á auglýsingu í DV. Fórum, skoðuðum og keyptum. Rukum niður í Rúmfatalagerinn og þar fengum við gardínur, diska og glös. Allri búslóðinni var síðan pakkað saman á kerru og Kiddi keyrði í loftköstum austur í bústað. Ég varð eftir með börnin og til að taka á móti ykkur og vísa leiðina að Álftavatni. Þegar við svo renndum í hlaðið þá var það eins og við manninn mælt, sófasettið komið inn, gardínurnar upp og stellið upp í skáp. Áttum við þarna okkar fyrstu kvöldstund í bústaðnum með ykkur en þær áttu eftir að verða margar og góðar.

Krakkarnir mínir, Bragi Björn og Sigrún, sakna þín sárt og minnumst við þess hversu gaman það var að fá pakka frá Vopnafirði með alls konar góðgæti og fallegum útprjónuðum peysum og vettlingum, því þó svo að litla stúlkan hafi ekki haldið mikið áfram með hannyrðirnar, þá hélst þú áfram að töfra fram listaverk í striga og flíkur í band. Blessuð sé minning þín.

Kristín Björg.

Látin er sæmdarkonan Sigrún Kristinsdóttir frá Helgafelli í Vopnafirði. Ekki er langt síðan við kvöddum eiginmann hennar og kæran frænda, Braga Dýrfjörð, 20. mars síðastliðinn.

Þegar maður lítur yfir farinn veg og minnist samskiptanna við Sigrúnu kemur strax upp í hugann orðið "ljúflingur". Hún hafði svo rólega og þægilega nærveru og var alla tíð hvers manns hugljúfi. Ég átti því láni að fagna í æsku að fá að dveljast í sveit á æskuheimili hennar á Eyvindarstöðum í Vopnafirði og kynnast foreldrum hennar sem voru mikið mannkostafólk. Frá þeim hefur Sigrún fengið það besta sem þau höfðu í fari sínu. Með það veganesti lagði hún út á lífsins ólgusjó.

Að hafa átt Sigrúnu sem samferðamann gerir mann að betri manneskju. Hún bjó yfir miklu æðruleysi og tókst á við gleði og sorgir án þess að bera þær á torg. Alltaf gat hún gefið af góðmennsku sinni hvernig sem á stóð í lífi hennar. Hún var ekki skaplaus kona en hafði yfirvegaða skapgerð og hafði skoðanir sem hún kom á framfæri þegar hún taldi það nauðsynlegt en flíkaði þeim ekki.

Hún var húsmóðir af Guðs náð, með náttúruhæfileika, gestrisin mjög og húsverkin léku í höndum hennar. Snyrtimennskan í öllu heimilishaldi var aðdáunarverð. Það var ekki asi á henni en öll verk vann hún af mikilli natni, sem áhorfandi fannst manni hún töfra fram guðaveigar án þess að maður yrði þess var að hún hefði hið minnsta fyrir því.

Hún hefði orðið framúrskarandi kokkur á einhverju nútíma hótelinu ef hún hefði haft tækifæri til að mennta sig í þeim fræðum.

Hennar vinnustaður var heimilið og var hún kjölfestan í lífi fjölskyldunnar og er það ekki lítið hlutverk í lífinu, sem vert er að tíunda þegar minnst er á ævistörf manna.

Það var oft glatt á hjalla á Helgafelli, heimili þeirra Sigrúnar og Braga. Hann var fjörkálfur og gat sprellað með okkur unga fólkinu, hún með sína rólegu og léttu lund og dillandi hlátur.

Það er oft haft á orði að sum hjón bæti hvort annað upp, það átti svo sannarlega við þessi ágætu hjón sem nú hafa gengið saman sína götu til enda. Hann ör í skapi og dreif í hlutunum og hún rólynd og fór sér að engu óðslega - bæði eftirminnilegar persónur sem gott var að dvelja með og eigum við hjónin og dæturnar ófáar dýrmætar minningar um þær stundir.

Sigrún mín hefur skilað sínu dagsverki og eftir situr minningin um trausta manneskju sem hefur veitt öðrum úr nægtabrunni góðvildar og rausnarskapar. Hún naut virðingar og ástúðar sinna nánustu og er missir þeirra Finns, Stínu og barnabarnanna Sigrúnar og Braga mikill og biðjum við góðan Guð að styrkja þau, um leið og við þökkum af alhug samfylgdina.

Sólveig Helga Jónasdóttir og fjölskylda.