Guðmundur Friðgeir Magnússon fæddist á Suðureyri við Súgundafjörð 2. maí 1927. Hann andaðist af slysförum á Þingeyri 22. júní síðastliðinn. Foreldrar hans voru Magnús Helgi Guðmundsson, f. 29.1. 1888, d. 22.1. 1961, og Guðmunda Kristín Guðmundsdóttir, f. 5.11. 1896, d. 15.7. 1976. Bróðir hans er Guðmundur Sören Magnússon, f. 8.10. 1922, kvæntur Kristínu Gunnarsdóttur, f. 17.7. 1931, og búa þau á Þingeyri. Þau eignuðust ellefu börn sem öll lifa nema eitt. Nöfn þeirra eru: Bjarni, Guðrún Finnborg, látin, Guðmunda Kristín, Magnús Helgi, Sigurveig, Gunnar Benedikt, Mikael Ágúst, Ingibjörg María, Jónína Björg, Sigríður Gerða og Katrín.

Guðmundur Friðgeir fluttist vorið 1929 með foreldrum sínum að Hrauni í Keldudal í Dýrafirði og ólst þar upp. Haustið 1949 fluttist hann þaðan með foreldrum sínum að Brekkugötu 8 á Þingeyri og bjó þar æ síðan uns hann fluttist í húsið númer tvö við sömu götu fyrir örfáum árum.

Frá æskualdri stundaði hann sjómennsku og reri á hverju sumri til handfæraveiða í 40-50 ár, einn á báti sínum. Frá 1986 átti hann bátinn Stíganda ÍS 181, sem er 3,77 tonn, og á árunum 1961-1985 annan minni bát með sama nafni.

Guðmundur Friðgeir var formaður Verkalýðsfélagsins Brynju á Þingeyri í 39 ár, frá 1958 til 1997, og gjaldkeri sama félags frá 1997 til ársloka 2001. Frá 1978 til 1990 átti hann sæti í stjórn Alþýðusambands Vestfjarða. Frá 1973 til 1996 átti hann sæti í stjórn Kaupfélags Dýrfirðinga og frá 1965 til 1994 í stjórn Slysavarnadeildarinnar Varnar á Þingeyri. Einnig var hann gjaldkeri í stjórn Bridgefélagsins Gosa frá 1968 til dauðadags. Hann var frá æskudögum virkur félagi í Sameiningarflokki alþýðu - Sósíalistaflokknum og síðar í Alþýðubandalaginu.

Frá 1966 til 1974 átti Guðmundur Friðgeir sæti í hreppsnefnd Þingeyrarhrepps og var í um það bil eitt ár starfandi sveitarstjóri þar og lengi endurskoðandi hreppsreikninga. Sem sjálfboðaliði vann hann við bókasafnið á Þingeyri, allt frá árinu 1949 til æviloka, og var í marga áratugi umsjónarmaður þess.

Útför Guðmundar Friðgeirs verður gerð frá Mýrakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14. Jarðsett verður í kirkjugarðinum á Þingeyri.

Guðmundur Friðgeir Magnússon sem við kveðjum í dag var formaður Verkalýðsfélagsins Brynju á Þingeyri í nær 40 ár og á öllu því langa skeiði var hann einn fárra máttarstólpa í stjórnmálasamtökum sósíalista á Vestfjörðum, jafnan fulltrúi á kjördæmisþingum og alloft á flokksþingum Sósíalistaflokksins og síðar á landsfundum Alþýðubandalagsins. Mjög lengi var hann jafnan fulltrúi Brynju á þingum Alþýðusambands Íslands og Alþýðusambands Vestfjarða og átti sæti í fjölmörgum samninganefndum verkalýðsfélaganna á Vestfjörðum. Í átta ár sat hann í hreppsnefnd Þingeyrarhrepps og í átján ár í stjórn Kaupfélags Dýrfirðinga.

Friðgeir var hógvær maður og hlédrægur að eðlisfari en naut mikils trúnaðar, langt út fyrir raðir pólitískra samherja og vakti hvarvetna traust. Ástæða þess var sú hversu málefnalegur hann var, skýr í hugsun og heiðarlegur í öllum samskiptum. Hann tranaði sér aldrei fram en sinnti af alúð og vandvirkni sérhverju verkefni sem honum var á hendur falið. Hann var ekki einn þeirra sem töluðu lengi og oft á málþingum en kæmi hann í ræðustól var á hann hlustað og það sem hann sagði skipti jafnan máli. Sem fundarritari var hann í fremstu röð, glöggur að greina aðalatriði frá aukaatriðum, rithöndin skýr og hafði traustara vald á íslensku máli en margur langskólagenginn.

Á öldinni sem leið átti stjórnmálahreyfing íslenskra sósíalista lengi á að skipa fjölmörgum liðsmönnum sem ætíð og ævinlega settu hag hreyfingarinnar ofar eigin hagsmunum, voru reiðubúnir til verka hvenær sem kallað var og lögðu aftur og aftur fram verulega fjármuni, af litlum efnum, þegar á þurfti að halda. Sá sem kvaddur er í dag var einn þessara manna.

Hann fæddist á Suðureyri í Súgandafirði 2. maí 1927, í húsinu númer 24 við Aðalgötu sem nú er horfið. Faðir hans var fæddur í Vatnadal, Súgfirðingur sem átti ættir að rekja í Önundarfjörð, en móðir Friðgeirs var úr Tálknafirði, fædd í Krossadal hærri. Tveggja ára að aldri fluttist hann með foreldrum sínum frá Suðureyri að Hrauni í Keldudal í Dýrafirði, vorið 1929, og þar, á hinu forna höfuðbóli sem er kirkjustaður, ólst hann upp. Í Hrauni bjuggu foreldrar Friðgeirs á þeim jarðarparti sem heyrði til fremri bænum og höfðu frá árinu 1936 Hólapartinn líka til ábúðar. Þríbýli var í Hrauni til 1936 og síðan tvíbýli. Um aldamótin 1900 voru íbúar Keldudals um það bil 100 og allt til ársins 1933 var búið á öllum jörðum í dalnum en frá 1966 hefur dalurinn legið í eyði og Hraunssókn öll verið eyðibyggð frá 1978.

Guðmundur Friðgeir gekk í barnaskóla í Keldudal í fjóra vetur. Þetta var farskóli og aðeins kennt í þrjá mánuðu samanlagt á hverjum vetri. Kennari Friðgeirs á síðustu árum hans í barnaskólanum var Sigurður E. Breiðfjörð sem þá var formaður verkalýðsfélagsins á Þingeyri. Líklegt er að hjá honum hafi pilturinn notið fyrstu kynna af jafnaðarstefnunni þó að lærisveinninn yrði síðar nokkru róttækari en meistarinn.

Haustið 1949 fluttist Friðgeir með foreldrum sínum inn á Þingeyri en þá tók bróðir hans, Guðmundur Sören, við búsforráðum í Hrauni ásamt eiginkonu sinni, síðastur í liðlega 1000 ára langri röð höfðingja og kotunga sem þar hafa búið en árið 1957 fór jörðin í eyði.

Þegar Guðmundur Friðgeir settist að á Þingeyri gerðist hann sjómaður og var á ýmsum bátum sem þaðan voru gerðir út og eina vertíð í Keflavík syðra. Á sumrin var hann þá í brúarvinnu um skeið. Um þrítugt eignaðist hann lítinn bát og upp frá því var hann oftast landmaður við beitningu á Þingeyri að vetrinum en reri á sumrin til fiskjar, einn á báti sínum. Þá róðra stundaði hann allt til hinsta dags.

Hann vildi standa meðan stætt var og hóf því enn róðra nú í vor á báti sínum Stíganda, þó að þrekið væri farið að bila. Báturinn var honum kær og hafið úti fyrir Vestfjörðum. Sínar síðustu lífsstundir átti hann þar og á heimleið inn Dýrafjörð en andaðist snögglega þegar komið var í höfn. Hann aflaði tíðum vel, fór oft fyrstur manna af stað, upp úr klukkan sjö á morgnana, og kom ekki að landi fyrr en eftir 12 til 15 klukkustundir. Miðið sem var hans uppáhald er um það bil 12 mílur undan Sléttanesi, nefnt Spillirinn og Kösin, og er þar sem fjallið Spillir í Súgandafirði kemur fram undan Sauðanesinu en þvermiðið Kös er hæsti hnúkurinn á Vatnsfjalli fyrir botni Ausudals í landi Hvamms í Dýrafirði.

Enda þótt Guðmundur Friðgeir nyti engrar skólagöngu, nema stopullar farkennslu á barnsaldri, var hann menntaður maður. Hann varð snemma sólginn í bækur, las alla tíð mikið á hverju ári og jók stöðugt við þekkingu sína með sjálfsnámi. Allur sögulegur fróðleikur var honum hunang og hann kunni góð skil á mönnum og málefnum á öllum öldum Íslandssögunnar. Um mannlíf í Dýrafirði á liðinni tíð var hann fróðari en flestir aðrir en flíkaði lítt þeirri þekkingu við aðra en nákunnuga og fékkst aldrei til að birta neitt úr þeim fræðasjóði á prenti. Sjálfur átti hann gott bókasafn en hafði líka um langt skeið, ásamt Skarphéðni Njálssyni, umsjón með almenningsbókasafni á Þingeyri og sá um innkaup fyrir það.

Gaman var að hitta þá félaga á safninu eða annars staðar, Skarphéðin, sonarson Sighvats Grímssonar Borgfirðings, helsta fræðimanns Vestfirðinga á árunum 1870-1930, og Friðgeir, dóttursonarson Friðberts Guðmundssonar í Vatnadal sem Almanakið frá 1901 segir hafa verið "fjölvitran gáfumann" en þann langafa Friðgeirs kallaði Sighvatur Borgfirðingur "uppáhald allra fræðimanna", að sögn Magnúsar Hjaltasonar.

Guðmundur Friðgeir Magnússon var ókvæntur og barnlaus en naut náinna fjölskyldutengsla við bróður sinn, Guðmund Sören, og konu hans, Kristínu Gunnarsdóttur, og börn þeirra. Hjá bróður sínum og mágkonu borðaði hann jafnan kvöldverð nú hina síðari áratugi, væri hann í landi.

Gott er að eiga dýrmæta minningu um sólbjartan dag í Keldudal með þeim bræðrum. Kirkjan í Hrauni stendur þar ein í auðninni, forðum helguð Þorláki biskupi Þórhallssyni. Barnaskólahúsið sem reist var árið 1910 er enn á sínum stað, niður við ána, en heldur nú hvorki vatni né vindum. Svo fer um mannanna verk en hin svipmiklu fjöll Keldudals haggast lítt þó að aldin séu að árum, Helgafell og Heiðnafjall, Strengbergsfjall og hið sérkennilega Hundshorn, Þverfell með Hálfdánargjá og sjálfur Arnarnúpurinn. Upp úr dalnum er hvergi fært með hesta og Ófærur á báða vegu sé gengið með sjó.

Í mynni Geldingadals, rétt framan við Þverá sem kemur úr Álftaskál, eru seltóttir. Þar var búsmali fólksins í Hrauni nytkaður allt til ársins 1820 og margan fagran sumardag barst um dalinn bergmálið frá hói smalanna. Skammt fyrir framan selið eru fallegir fossar í Geldingadalsánni og heitir sá efsti Landdísarfoss. Við fossinn standa þeir vörð Landdísarsteinn vestan ár og Dagvarður, félagi hans, hinum megin við ána. Hjá Landdísarfossi er sælt að una. Ómur fossins er einn og samur þó að fólkinu fækki sem sönginn þekkir.

Guðmund Friðgeir sá ég fyrst á Siglufirði sumarið 1950. Við vorum þá báðir ungir síldarsjómenn, hann á Skíðblaðni ÍS frá Þingeyri en ég á Fram GK frá Hafnarfirði. Kært var með okkur æ síðan og áttum við lengi margt saman að sælda, bæði í stjórnmálum og á fleiri sviðum mannlífsins. Hann var góður ráðgjafi. Ég kveð hann nú við leiðarlok með þökk og virðingu.

Kjartan Ólafsson.

Kæri Geiri. Það er komið að kveðjustund. Þú ert lagður af stað í þína hinstu ferð. Þú komst að landi og hafðir lokið við að ganga frá aflanum þegar kallið kom. Það var of snemmt fyrir okkur sem söknum þín sárt. Það tengjast þér ótal minningar frá bernsku okkar. Þú hafðir mikil áhrif á okkur. Alltaf svo rólegur og yfirvegaður, með svör við spurningum okkar. Það var mikil viska sem þú bjóst yfir og til þín gátu allir leitað. Það sýnir sig best í öllum þeim félögum sem þú áttir aðild að og tókst þátt í, þar er um að ræða áratuga starf. Það var aldrei flanað að neinu, allt unnið af samvisku og skynsemi. Það stóðst alltaf allt sem þú sagðir.

Þær voru ótal ferðirnar sem við fórum sem börn í gamla Land-Rover út í Sneiðinga sem svo eru kallaðir til að athuga hvort við sæjum Stíganda sigla að landi. Þau voru mörg skiptin sem við sem börn fengum að sigla milli bryggja með þér og oft vorum við sein svo þú þurftir að snúa við til að leyfa okkur að sigla þessa fáu metra sem var ævintýraferð fyrir okkur. Seinna á fullorðinsárum þegar við komum með okkar börn máttum við til með að fara með. Það var ævintýrabragur að koma í heimsókn á Brekkugötu 8 (Bala), bæði meðan amma lifði og svo ekki síður eftir að þú bjóst þar einn. Þú varst hagsýnn maður, ekki nýjungagjarn, svo inni hjá þeir stóð tíðin í stað. En það voru ógrynnin öll sem þú last alla þína tíð. Við systkinin höldum því oft fram að þú hafir að öllum líkindum lesið allar bækur sem gefnar hafa verið út á Íslandi og átt þær flestar.

Samband ykkar pabba einkenndist alla tíð af svo mikilli virðingu hvor fyrir öðrum og úr varð djúp og einlæg vinátta. Hjá mömmu, sem að hluta til var einnig alin upp í Keldudal með ykkur, skipaðir þú stóran sess, þú reyndist henni sem besti bróðir þar sem hennar eigin systkini voru svo langt í burtu. Í um 30 ár komst þú í mat heim til þeirra og í raun áttir þitt annað heimili hjá þeim og í hvert skipti sem sest er til borðs nú leitar hugurinn til þín og við bíðum eftir þér. Það var aldrei byrjað að borða fyrr en þú og pabbi voruð sestir til borðs. Aðfangadagskvöld gat reynst mörgum erfitt ef þér seinkaði. Þá voru sumir orðnir óþolinmóðir að bíða. Þau voru ófá skiptin sem litlar hendur bönkuðu upp á hjá þér og alltaf dreifst þú þig af stað til að verða við óskum okkar en spurðir samt með stríðni í augunum af hverju verið væri að flýta sér svona mikið.

Elsku mamma og pabbi, söknuður ykkar er mikill, það er stórt skarð sem okkar kæri frændi skilur eftir sig. Það eru fá orð sem geta linað okkar sorg, en minning um góðan frænda lifir með okkur alla ævi.

Deyr fé,

deyja frændr,

deyr sjálfr it sama.

En orðstírr

deyr aldrigi

hveim es sér góðan getr.

(Úr Hávamálum.)

Ingibjörg María, Sigríður Gerða, Katrín

og fjölskyldur þeirra.

Kveðja frá Alþýðusambandi Vestfjarða

Í dag kveðjum við verkalýðsforingjann Guðmund Friðgeir Magnússon frá Þingeyri, mann sem staðið hafði í forustusveit verkalýðshreyfingarinnar á Vestfjörðum í hálfa öld.

Margt hefur áunnist í réttindabaráttu verkafólks á þessum tíma. Ýmis réttindi sem þykja sjálfsögð í dag kostuðu langa og stranga baráttu. Það er einmitt fyrir tilverknað og brennandi hugsjónir manna eins og Guðmundar Friðgeirs sem áfangar hafa náðst í réttindabaráttu alþýðunnar. Einmitt fyrir þrotlausa sjálfboðavinnu slíkra manna og þolgæði hefur fólk fengið veikindarétt, orlof, hvíldarákvæði, atvinnuleysisbótarétt og lífeyrisrétt, svo eitthvað sé nefnt af þeim réttindum sem nú þykja sjálfsögð en voru tæpast til fyrir hálfri öld.

Guðmundur Friðgeir tók við formennsku í Verkalýðsfélaginu Brynju á Þingeyri árið 1959 og gegndi þeirri trúnaðarstöðu fyrir verkafólk til ársins 1997. Hann tók við af jafnaðarmanninum og listamanninum Sigurði Breiðfjörð og var sannkallaður arftaki hans hvað varðaði eldheitan vilja til að vinna alþýðu þessa lands sem mest og best. Öllum framfarasporum var Guðmundur Friðgeir hlynntur og úrræðagóður við úrlausn mála, enda bráðgreindur og snjall að setja fram skoðanir sínar í ræðu og riti. Ávallt skipaði hann sér í raðir þeirra róttækustu í skoðunum á réttindamálum alþýðunnar og gerði þar meiri kröfur fyrir hönd annarra en sjálfs sín.

Guðmundur Friðgeir vissi og trúði því að sterk samtök launamanna kæmu meiru fram og væru betri til að verja fenginn hlut en fámennir hópar einir og sér. Þess vegna beitti hann sér mjög á vettvangi Alþýðusambands Vestfjarða, var fulltrúi síns félags á þingum þess, fyrst 1958 og öllum þingum síðan. Hann var í stjórn sambandsins frá 1973 til 1988.

Fundargerðabækur sambandsins bera Guðmundi Friðgeiri glöggt vitni. Þar er ekki bara falleg og auðlesin hönd, heldur einnig það sem einkenndi hann persónulega. Meitluð frásögn þar sem aðalatriðunum er komið til skila og langar ræður dregnar saman í fá hnitmiðuð orð. Þessa list kunni hann öllum mönnum betur.

Með Guðmundi Friðgeiri er horfinn traustur félagi sem með ljúfri og heiðarlegri framkomu kom mörgu til leiðar sem alþýða þessa lands nýtur góðs af og mun gera í framtíðinni.

Samtök verkafólks á Vestfjörðum kveðja hann með söknuði og þakklæti.

Alþýðusamband Vestfjarða.

Pétur Sigurðsson.