"VIÐ erum að vonum afar svekktir yfir þessari niðurstöðu enda ætluðum við okkur að komast í gegnum þetta einvígi. Við lögðum mikið í Evrópukeppnina og ég, líkt og leikmenn, er daufur í dálkinn.

"VIÐ erum að vonum afar svekktir yfir þessari niðurstöðu enda ætluðum við okkur að komast í gegnum þetta einvígi. Við lögðum mikið í Evrópukeppnina og ég, líkt og leikmenn, er daufur í dálkinn. Við héldum leiknum í jafnvægi allan tímann en markið lét á sér standa," sagði Willum Þór Þórsson, þjálfari KR-inga, við Morgunblaðið í gær eftir að hans menn féllu úr leik í Meistaradeildinni með því að gera markalaust jafntefli við Shelbourne.

"Það vantaði kraft fram á við hjá okkur eins og hefur einkennt liðið megnið af tímabilinu. Sölvi fékk dauðafæri í fyrri hálfleik, sem írski markvörðurinn varði, en fyrir utan það náðum við ekki að finna glufur á vörn þeirra. Írarnir sköpuðu sér í sjálfu sér ekki nein dauðafæri og á lokakaflanum lágu þeir til baka og hugsuðu fyrst og fremst um að halda fengnum hlut. Það kom á daginn að værukærð okkar á lokamínútunum í fyrri leiknum reyndist dýrkeypt og þegar upp er staðið má segja að einvígið hafi tapast á fimm mínútna kafla á Laugardalsvellinum."

Gunnar Einarsson, miðvörðurinn sterki, fékk högg á hnéð í síðari hálfleik og þurfti að fara af velli og sagði Willum óvíst hvort hann gæti verið með í leiknum gegn Víkingi á sunnudaginn.