ÍSLANDSMEISTARALIÐ KR í knattspyrnu karla er úr leik í forkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir að liðið gerði markalaust jafntefli í Dublin á Írlandi í gær gegn írska meistaraliðinu Shelbourne.

ÍSLANDSMEISTARALIÐ KR í knattspyrnu karla er úr leik í forkeppni Meistaradeildar Evrópu eftir að liðið gerði markalaust jafntefli í Dublin á Írlandi í gær gegn írska meistaraliðinu Shelbourne. Fyrri leiknum, sem fram fór á Laugardalsvelli fyrir viku, lauk með jafntefli, 2:2, og komast Írarnir áfram á mörkum skoruðum á útivelli. Þess ber að geta að í fyrri leiknum voru KR-ingar með vænlega stöðu þegar 6 mínútur lifðu af leiknum.

Shelbourne mætir Hadjuk Split frá Króatíu í næstu umferð.

Á útvarpslýsingu KR-útvarpsins í gær mátti heyra að það voru heimamenn sem fengu bestu færi leiksins, en leikmenn KR náðu ekki að skapa sér afgerandi færi. Varnarmenn Shelbourne voru staðráðnir í því að halda hreinu og ætlunarverkið tókst.

Undir lok leiksins reyndu KR-ingar allt hvað þeir gátu til þess að skora og fór Kristján Finnbogason, markvörður liðsins og fyrirliði, inn í vítateig andstæðinganna í föstum leikatriðum. En án árangurs.

Leikurinn þótti tilþrifalítill að öðru leyti þar sem heimamenn lögðu allt kapp á vörnina og að sama skapi þóttu KR-ingar svifaseinir í aðgerðum sínum í sókninni.

Þetta var í fyrsta sinn sem KR mætir írsku liði í Evrópukeppni.

Shelbourne lék gegn ÍA árið 1995 og tapaði báðum leikjum sínum gegn ÍA 3:0, en frá þeim tíma hefur liðið tekið miklum breytingum.