SLYSUM á börnum á aldrinum 0-4 ára hefur fækkað verulega í heimahúsum og í frítíma fjölskyldunnar. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn Eriks Brynjars Schweitz Erikssonar læknanema.

SLYSUM á börnum á aldrinum 0-4 ára hefur fækkað verulega í heimahúsum og í frítíma fjölskyldunnar. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn Eriks Brynjars Schweitz Erikssonar læknanema. Um sjötíu og fimm prósent slysa sem 0-4 ára börn verða fyrir verða í heimahúsum eða í frítíma fjölskyldunnar, en fall er helsta orsök slysa á þessum aldri.

Frá 1996 hefur slysum á börnum í yngsta aldurshópnum fækkað úr 128 á hverja þúsund íbúa í 78 á hverja þúsund. Þá hefur eitrunartilfellum fækkað margfalt. Í rannsókn sem gerð var 1986 voru eitranir 10,6% allra orsaka slysa. Nú eru eitranir komnar niður í 0,6%. Þá hefur klemmu- og brunaslysum fækkað mjög.

Færri slys en hjá Dönum

Tíðni frítíma- og heimaslysa er nú lægri en hjá Dönum, en hingað til hefur Ísland verið með hæstu slysatíðni á Norðurlöndum. Svíar eru með langlægstu tíðni barnaslysa.

Herdís L. Storgaard, forstöðumaður Árvekni, samstarfshóps um forvarnir gegn slysum, segir foreldra ungra barna geta gert margt til að koma í veg fyrir slys. Herdís segir börn oft skorta þroska sem fullorðnir hafa til að meta aðstæður.