VEGAGERÐIN leggur til að nýr Gjábakkavegur, milli þjóðgarðsins á Þingvöllum og Laugarvatns í Bláskógabyggð, verði lagður eftir leið 3 og leið 7 sem komið höfðu fram í skipulagsferli vegarins.

VEGAGERÐIN leggur til að nýr Gjábakkavegur, milli þjóðgarðsins á Þingvöllum og Laugarvatns í Bláskógabyggð, verði lagður eftir leið 3 og leið 7 sem komið höfðu fram í skipulagsferli vegarins. Á austurhluta framkvæmdasvæðis liggur leið 3 á þurrasta hluta hverfisverndaðrar Blöndumýrar, og kemur því ekki til með að skerða votlendisgróður hennar. Vestan megin liggur leið 7, og mun ekki liggja um gróðurfélög eða gróðurfarslega sérstæð svæði. Það er mat Vegagerðarinnar að þeir framkvæmdakostir sem hafa verið kynntir til athugunar í mati á umhverfisáhrifum komi ekki til með að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Þessar niðurstöður birtast í matsskýrslu Vegagerðarinnar um mat á umhverfisáhrifum.

Samstaða náðist um vegarstæði

Ólíkar skoðanir tókust á um nýtt vegarstæði, og vildu sveitarfélögin Bláskógabyggð og Grímsnes- og Grafningshreppur fara svonefnda leið 12, en sú leið sker í sundur land Gjábakka, sem er innan þjóðgarðs. Þingvallanefnd var á öndverðum meiði, og lagði til að leið 7 yrði farin. Vegagerðin hafði samráð um hentugasta vegstæðið við Þingvallanefnd, Bláskógabyggð og samráðsnefnd um skráningu Þingvalla á heimsminjaskrá UNESCO, og niðurstaða þess samráðs var, að þessir aðilar féllust allir á leið 7, en samstaða náðist ekki um aðrar leiðir.

Gert er ráð fyrir að umferð um nýjan Gjábakkaveg verði 300 til 500 bílar á sólarhring árið 2010, en var 170 bílar á sólarhring um gamla veginn árið 2000. Hann hefur einungis verið opinn yfir sumartímann, enda nær ekkert uppbyggður. Frístundabyggð í nágrenni Laugarvatns og Þingvalla hefur stækkað mikið á undanförnum árum og verður leiðin um Gjábakkaveg milli Reykjavíkur og Laugarvatns um 20 km styttri en leiðin um Selfoss.

Gjábakkavegur er hluti hins svonefnda Gullna hrings, og hafa rútur einatt farið gamla veginn yfir sumartímann, oft við erfiðar aðstæður. Með opnun heilsársvegar opnast leið til að halda úti hringferðum um Þingvelli, Geysi og Gullfoss árið um kring. Leitast verður við að halda veginum í því ástandi að snjór og/eða ís hafi sem minnst áhrif á flæði eða öryggi umferðarinnar. Haust og vor, á meðan snjólétt er verður veginum haldið greiðfærum alla virka daga. Yfir veturinn verður vegurinn mokaður 3-5 daga í viku ef þörf krefur.