Formaður Blaðamannafélags Íslands hefur ekki fyrr verið spurður spurninga hér í Staksteinum en hann svarar þeim á fréttasíðum Morgunblaðsins og er það vel.

Formaður Blaðamannafélags Íslands hefur ekki fyrr verið spurður spurninga hér í Staksteinum en hann svarar þeim á fréttasíðum Morgunblaðsins og er það vel.

Í gær var á þessum vettvangi spurt um skoðanir Róberts Marshalls á því hvernig löggjöf um eignarhald á fjölmiðlum ætti að vera að hans mati. Hann svaraði þeim spurningum samdægurs í samtali við fréttadeild Morgunblaðsins.

Hverjar eru skoðanir formanns Blaðamannafélagsins? Hann telur að eignarhaldsprósenta markaðsráðandi fyrirtækja á öðru sviði eigi að vera 20-30% í ljósvakamiðlum.

Það er svona nokkurn veginn nákvæmlega sú skoðun, sem aðaleigandi Norðurljósa og þar með Stöðvar 2, Jón Ásgeir Jóhannesson, hefur nefnt í þessu sambandi. Svo að ekki gengur hnífurinn á milli fréttamannsins og aðaleigandans um þetta atriði.

Jafnframt segir formaður Blaðamannafélagsins:

"Það að fyrirtæki þurfi að hafa fjölmiðlarekstur að meginmarkmiði til að fá útvarpsleyfi tel ég einnig mjög furðulegt ákvæði í þessum lögum og einnig bannið við víxleign á dagblöðum og ljósvakamiðlum. Menn geta haft hömlur á slíkri víxleign en ekki bann."

Þar með er ljóst að enginn skoðanaágreiningur er á milli formanns Blaðamannafélagsins og vinnuveitenda hans hjá Norðurljósum. Enginn getur gert kröfu til slíks en gagnlegt að það skuli liggja fyrir.

Franski flugvéla- og vopnaframleiðandinn Dassault þarf ekki að eiga nema 20-30% í fjölmiðlafyrirtækinu, sem vopnasalinn er að kaupa, til þess að ráða því. Hið sama á við um aðaleiganda Norðurljósa.

Dassault gerir sér líka vonir um að ein helzta sjónvarpsstöð í Frakklandi renni inn í fjölmiðlasamsteypu sína. Það verður þá líkt á komið með Norðurljósum og fjölmiðlasamsteypunni í Frakklandi. Aðaleigendur beggja eru markaðsráðandi aðilar á öðru sviði og leggja áherzlu á víxleign sjónvarpsstöðva og blaða.

Eftir stendur ein lítil spurning: Í hverju er þá málefnaleg samstaða formanns Blaðamannafélags Íslands með starfsfélögum hans í Evrópu fólgin?